04.05.1923
Neðri deild: 57. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1697 í B-deild Alþingistíðinda. (1505)

5. mál, útflutningsgjald

Frsm. minni hl. (Jakob Möller):

Hv. frsm. meiri hl. (MG) talaði um, að óforsvaranlegt væri að taka lán, nema borgað væri tilsvarandi af öðrum lánum á sama tíma. Jeg get nú ekki verið á sama máli, því ætti að fylgja því, mætti aldrei framkvæma neitt, aldrei ráðast í neitt nýtt fyrirtæki, nema fyrir sem svaraði tekjuafgangi ársins. Yrði því harla lítið um framkvæmdir. Og ef háttv. þm. (MG) heldur þessu fram sem rjettri stjórnmálastefnu, þá hefir hans fjármálastjórn að minsta kosti verið algerlega óforsvaranleg.

Háttv. frsm. meiri hl. (MG) talaði einnig um, að landið hefði flotið langan tíma á því, að tekjurnar hefðu farið fram úr áætlun. Þetta er rjett, en af því gjöldin hafa líka farið fram úr áætlun, þá þurfti þess við; annars hefðu safnast skuldir. En á „normal“ ári er vitanlega auðvelt að áætla tekjur og gjöld svo nákvæmlega, að slíkt þurfi ekkert að óttast. Og þó að nú sje ekki „normal“-árferði, þá er vitanlegt, að alt verðlag er yfirleitt lækkandi, svo að það, sem væntanlega skakkar á ársreikningum, verður vafalaust ríkissjóði í hag.