22.03.1923
Efri deild: 24. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 140 í B-deild Alþingistíðinda. (156)

13. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Fjármálaráðherra (MagnJ):

Jeg ætla mjer eigi að lengja umræðurnar um þetta mál, sem gætu orðið langar, ef nákvæmlega ætti að fara út í ræðu hv. 2. þm. G.-K. (BK), sem að mörgu leyti var mjög fróðleg. En jeg vildi aðeins taka það fram, að það var einn galli á ræðu hv. þm., og hann er sá, að hún er haldin 2 árum of seint. Ræða þessi hefði átt að koma fram, þegar verið var að setja tekjuskattinn á 1921, en eigi nú, þegar verið er þó heldur að reyna að leiðrjetta skattstigann, sem þá var settur. Finst mjer, að ræða háttv. 2. þm. G.-K. (BK) hafi þess vegna eigi átt allskostar við nú. Háttv. þm. mintist á það, að það ætti að sleppa lægstu tekjunum við skatt. Er einmitt hið sama og frv. stjórnarinnar fór fram á, og get jeg því fyllilega tekið undir það með honum. En því var breytt af samherjum hv. þingmanns í Nd.