04.04.1923
Efri deild: 31. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1719 í B-deild Alþingistíðinda. (1568)

100. mál, réttindi og skyldur hjóna

Frsm. (Jón Magnússon):

Jeg geri ráð fyrir, að jeg þurfi ekki að orðlengja um frv. að sinni. Frv. er kunnugt frá þinginu í fyrra, og þó að ekki hafi verið til nægilega mörg eintök frá í fyrra til þess að útbýta meðal þm., þá hafa verið lögð fram þingtíðindin, svo þetta kemur í sama stað niður.

Nefndin hefir fallist á frv. að efni til, aðeins gert lítilfjörlegar orðabreytingar, en þó er einnig í orðabreytingunum frv. sjálfu yfirleitt fylgt, eins og háttv. þm. geta sjeð, ef þeir bera brtt. saman við frv. Frv. fylgir skýr greinargerð, og er því óþarfi að fara nánar út í einstök atriði. Þetta frv. er einnig samið af hæstarjettardómara Lárusi H. Bjarnason, og hefir hann samið öll sifjafrv., og mega menn vera honum þakklátir fyrir það mikla verk, sem hann hefir lagt í frv.; sjerstaklega má kvenfólkið vera honum þakklátt. Sem sagt, jeg sje ekki ástæðu til þess að fara út í einstök atriði, en af því að þetta er merkilegt mál, þá ætla jeg að fara nokkrum orðum um það frá almennu sjónarmiði.

Jeg held jeg megi segja, að konur hafi yfirleitt haft góða aðstöðu tiltölulega hjer á landi. Og hvað sem annars um Alþingi má segja, þá er óhætt að fullyrða, að það hafi yfirleitt tekið liðlega í það að jafna rjett karla og kvenna. Nú er ekki annað eftir af þessu verki en þetta frv., og jeg treysti því, að það verði nú að lögum. Flest atriði í frv. eru þannig vaxin, að varla verða að deiluefni. En eitt atriði aðeins gæti ef til vill orðið deiluefni, og það er um fjármálin. Áður var það talið, að konur væru ófærar til þess að fara með fjármál sín, og var því mönnum þeirra eða frændum falið að vernda þær. Síðar rjeðu eiginmenn eigum kvenna sinna að öllu leyti. En þegar farið var að losa um, fengu ekkjur fyrst lögræði, síðan ógiftar konur, og svo loksins seint og síðar meir giftar konur. En með lögræði giftra kvenna fylgdu ekki umráð yfir fjármálunum, og gat það því að ýmsu leyti orðið hermdargjöf. En nú getur það ekki lengur talist forsvaranlegt, að löggjafinn verndi fullvita og lögráða konur fyrir erfiðleikum og freistingum atvinnulífsins fremur en ógiftar konur. Það svarar ekki til þess, sem nútíminn krefst. Konur hafa nú fengið jöfn ráð á við karlmenn á ýmsum sviðum, sem ekki eru vandaminni. t. d. í þjóðfjelagsmálum, og það er ekki gott að sýna fram á, að á fjármálasviðinu eigi að gera undantekningu.

En það gæti verið spursmál, hvort setja eigi sjerstaka löggjöf um hjónaband, í stað þess að láta þar gilda þær almennu reglur, sem eru um annan fjármálafjelagsskap, t. d. verslun o. s. frv. En þjóðfjelaginu er þannig háttað, að það er bygt að miklu leyti á hjónabandinu, og það er miklu nánari fjelagsskapur en annar, og er því rjett, að þar gildi sjerstakar reglur. Það er sjerstaklega nauðsynlegt vegna barnanna, og auk þess vegna þess etiska atriðis, sem kemur svo mjög til greina í hjónabandinu. Eins er það heppilegast fyrir þriðja mann, því hjón munu yfirleitt hafa meiri tilhneigingu en aðrir til þess að flytja fje sín á milli, og gætu á þann hátt oft skotið undan. Það er því sjálfsagt, að um þessa samsteypu gildi sjerstakar reglur. Frv. gerir ráð fyrir að setja hjónin jafnt yfir fjelagsbúið. Nú er, eins og menn vita, að hjón geta haft sameign að sumu eða öllu leyti, og eins sjereign að sumu eða öllu. En frv. fer fram á, að hjónin eigi í raun og veru jafnt, því ef til skifta kemur, þá er gert ráð fyrir, að eignirnar skiftist jafnt, eða hvort hjóna fái helming af eign hins. Menn kunna að halda, að þetta sje flókið, en jeg býst ekki við, að ástæða sje til að óttast það. Jeg geri ráð fyrir, að menn finni sáralítið til þessara laga, nema þar sem þess gerist þörf, en þar eru þau líka nauðsynleg. Jeg held því, að óhætt sje að ráða háttv. deild til að samþykkja frv. óbreytt.