04.04.1923
Efri deild: 31. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1722 í B-deild Alþingistíðinda. (1569)

100. mál, réttindi og skyldur hjóna

Ingibjörg H. Bjarnason:

Jeg ætla að leyfa mjer að flytja fáein orð í sambandi við þetta frv., en háttv. frsm. (JM) hefir tekið flest það fram, sem jeg vildi segja. Jeg er ekki lögfræðingur, aðeins leikmaður, en þó vil jeg fara nokkrum orðum um frv. frá almennu sjónarmiði og lýsa áliti mínu á því.

Eins og kunnugt er, þá er lögmælta skipulagið á fjármálum hjóna það, að bæði hjónin eiga að vísu jafnmikið í búinu, en að maðurinn rœður yfirleitt beggja hluta jafnt, hluta konunnar eins og sínum.

Jeg skal að vísu játa það, að þessi umráðaregla er handhæg, miklu handhægari en að heimta samþykki beggja til hverrar ráðstöfunar. En hún er að sama skapi ósanngjörn, og því ósanngjarnari, sem konan hefir lagt meira í búið eða leggur meira fram til þess. Það er kátlegt, að kona, sem lagt hefir fram megnið af eigum búsins, skuli þurfa að nauða fje út úr manni sínum í hvert skifti, sem hún þarf að kaupa t. d. tvinnakefli eða aðrar smánauðsynjar.

Þessa agnúa gætir náttúrlega lítið í góðum hjónaböndum, og hjónin geta leyst sig undan þessum reglum með kaupmála. En fyrst og fremst er hart að þurfa sjerstaklega að hefjast handa til samninga, til þess að losna við úreltan ójöfnuð, og svo hefir þessi heimild víst verið sáralítið notuð, að minsta kosti utan kaupstaðanna.

Ekki hafa heldur sjálfsaflareglurnar og aðrar hömlur á einkaumráðarjetti mannsins í lögunum frá 1900, um fjármál hjóna, komið að nægu haldi. Og það er ekki von. Reglan, að láta annan ráða eign beggja, er óhæf, af því að hún er ranglát. Það verður að kasta henni og finna aðra rjettlátari, helst rjettláta.

Og sú regla skilst mjer vera í frv., að láta hvort hjóna ráða sínu, eða því, sem lögin kalla „hjúskapareign“, en það merkir þá muni, sem hvort um sig leggur í búið. Það er gert í 18. gr. þessa frv., og konunni jafnframt í 12. gr. heimilað sama samningafrelsi til nauðsynja heimilisins sem bónda hennar.

Að vísu dylst mjer ekki, að nýju reglnanna muni gæta meir í orði en á borði. Það kemur til af því, meðal annars að í langflestum hjónaböndum mun lítið um annað verðmæti að ræða en vinnukrafta hjónanna. Reglunnar mun í framkvæmdinni aðallega gæta þar, sem konan leggur eitthvað að marki í búið; en þar er líka þörfin brýnust til breytinga.

Auk annara nýmæla í frv. þessu má geta þess, að ekkju er með 61. gr. gert jafnhátt undir höfði og ekli, til þess að halda búinu óskiftu eftir lát mannsins, með ófjárráðum börnum beggja, (konan á ekki að þurfa leyfi til þess fremur en ekkillinn, eins og nú er), og að erfðarjettur beggja hjónanna, hvors eftir annað, er aukinn í 87. og 88. gr., sjerstaklega þegar hið látna hefir ekki látið eftir sig afkomendur. Og býst jeg ekki við, að nokkur amist við þeim reglum.

En jeg vona, að karlmennirnir amist heldur ekki við breytingunum á umráðarjettinum, svo sanngjarnar og sjálfsagðar sem þær eru, og það því síður, sem þær samkvæmt 90. gr. taka ekki til þeirra hjóna, sem gifst hafa fyrir daga nýju laganna. Og samkv. aths. við 29. og 90. gr. geta þau hjón, sem síðar giftast og þess óska, búið við gamla lagið.

Jeg skal svo ekki fjölyrða frekar um frv. þetta, sem er eðlileg fylgja sifjalaganna frá 1921 og konur leggja alment mikið upp úr, og ekki síst þessu frv. og lögunum um óskilgetnu börnin, sem má telja merkilegustu „sociallögin“, sem landið hefir eignast.

Að síðustu leyfi jeg mjer í nafni íslenskra kvenna að þakka hæstv. landsstjórn fyrir það, að hafa lagt frv. þetta fyrir háttv. deild nú, og þannig gert það unt, að afgreiða á þessu þingi síðasta frv. í lagabálki þeim, sem kallast sifjalög. Enn fremur fyrir sifjalögin; af þingmönnum sjerstaklega hv. 4. landsk. þm. (JM). bæði sem ráðherra og þingmanni, og svo hv. þm. Seyðf. (JóhJóh).

Vona jeg svo, að frv. fái þá meðferð hjer í deildinni, að það verði án breytinga afgreitt sem lög frá þessu þingi.