09.05.1923
Neðri deild: 60. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1726 í B-deild Alþingistíðinda. (1575)

100. mál, réttindi og skyldur hjóna

Frsm. (Magnús Guðmundsson):

Jeg þarf ekki að vera margorður um frumvarp þetta, þótt það sje bæði langt og merkilegt. Nefndin hefir engar brtt. gert við það, en óskar eftir því, að það verði samþ. óbreytt.

Frv. þetta er búið að ganga gegnum háttv. Ed., og hafa litlar breytingar verið gerðar á því þar. Hafa þær helst gengið í þá átt að færa frv. til betra máls, en efnisbreytingar litlar. Enda þótt nefndinni fyndist nú, að ganga hefði mátt dálítið lengra með orðabreytingar, þá vildi hún þó ekki gera það og hætta á með því, að frv. nái ekki fram að ganga á þessu þingi. Telur nefndin mikla bót á því að fá þennan bálk inn í sifjalögin í viðbót við það, sem áður var komið, og ræður háttv. deild til að samþykkja hann.