09.03.1923
Efri deild: 13. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1738 í B-deild Alþingistíðinda. (1589)

11. mál, fátækralög

Jónas Jónsson:

Jeg vildi bæta fáum orðum við, viðvíkjandi sveitfestistímanum. Stjórnin hefir lagt til, að hann yrði 5 ár, og nefndin hefir látið það afskiftalaust. Síðan hefir komið fram brtt. um að færa hann niður í 3 ár, og mun jeg greiða atkvæði með því við þessa umr. En jeg hefi hugsað mjer að koma fram með brtt. til 3. umr. um að sveitfestistíminn verði færður niður í 2 ár.

Jeg skal þá í fáum orðum skýra frá því, hvers vegna jeg álít, að stytta þurfi tímann, án þess þó að ganga eins langt í því eins og sumir hv. þingdeildarmenn virðast vilja. Skal jeg nefna dæmi, sem ekki er hjer langt undan, en það er Álftanesið. Sýnir það dæmi glögglega, hversu ranglátt 10 ára ákvæðið var.

Álftanesið var áður mjög fjölmennur hreppur. Ólst því margt af fólki þar upp, sem síðar fluttist á burt, mest til Reykjavíkur. Þegar svo þessir menn gefast upp, verða hinir fáu, sem eftir eru, að taka við þeim. Jeg hefi það frá skilríkum manni, bónda á Álftanesinu, að sveitargjöldin eru þar orðin lítt bærileg. T. d. hefir þessi maður útsvar, sem svarar meðlagi 4 niðursetninga.

Þetta sýnir, að ástandið, sem verið hefir, er ófært, er liggur í því, að fólkið þyrpist í burtu úr sveitum landsins til kauptúnanna. Þarf ekki annað en benda á vöxt Reykjavíkur, sem hefir sexfaldast á fáum árum, eða íbúatalan hefir aukist frá 3000 upp í 18000. Til þessarar fjölgunar hafa allir lagt, og því tel jeg rjett að lækka sveitfestistímabilið niður í 2 ár, en veita á móti bæjar- og sveitarfjelögum íhlutunarrjett um innflutninginn.

Jeg tel það algerlega frágangssök að leggja þá byrði á sveitarfjelögin, að þeim sje skylt að taka á móti öllum sonum sínum og dætrum, sem farið hafa á brott hraust og þróttmikil mörgum árum áður, en koma svo heim á efri árum, útslitin og veik, og hafa unnið alla sína manndómstíð í öðrum sveitarfjelögum, sem kasta svo fólki þessu á fæðingarhreppinn, þegar eitthvað bjátar á. Sveitarfjelögin eiga að bera ábyrgð á sjálfum sjer. Því kysi jeg helst, að sveitfestistíminn væri lækkaður niður í 2 ár og að jafnhliða því væri sveitarfjelögunum heimilað að loka úti fólk það, er það vildi eigi, að flyttist inn. Jeg held, að eigi sje ráðlegt að stytta sveitfestistímann enn þá meira, því að það þarf að vera hægt að henda reiður á, hvar menn eiga sveit. Jeg skal taka það fram, að í nágrannalöndum vorum er haft mjög strangt eftirlit með heimilisfangi manna, sem þangað flytjast, og skal jeg sem dæmi nefna eitt tilfelli, sem mjer er kunnugt um. Danskur maður, sem hafði verið búsettur í Bergen í 1–2 ár, kyntist íslenskri stúlku og bað hana að koma til Bergen og vera hjá sjer. Maður þessi lenti í betrunarhúsinu í Bergen, af því að hann hafði eigi látið þessa ógiftu stúlku segja til heimilisfangs. Stúlkan braut lög með því að vera þarna án þess að segja til heimilisfangs síns. Er alveg óhjákvæmilegt að herða á löggjöfinni um þetta atriði, svo menn svíkist eigi undan að segja frá, hvar þeir eigi heimilisfang.

Jeg skal leyfa mjer að taka það fram aftur, að jeg mun greiða brtt. atkvæði mitt við þessa umræðu, en áskil mjer rjett til þess að koma fram með brtt. við 3. umr., þess efnis, að sveitfestistíminn verði styttur niður í 2 ár.