09.03.1923
Efri deild: 13. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1745 í B-deild Alþingistíðinda. (1595)

11. mál, fátækralög

Atvinnumálaráðherra (KIJ):

Aðeins örstutt athugasemd. Háttv. 2. landsk. þm. (SJ) spurði, hversvegna væri nauðsynlegt, þó sveitfestistíminn yrði styttur, að sveitarstjórnirnar hefðu einhverjar hömlur til þess að sporna við of miklum innflutningi. Ástæðurnar fyrir þessu eru auðsæjar. Ef sveitfestistíminn er 10 ár, er lítil eða jafnvel engin ástæða fyrir sveitarstjórnirnar að amast við innflutningi. Það er ómögulegt fyrir þær að sjá svo langt fram í tímann, hvernig fara muni; efnaður maður getur orðið öreigi á þeim tíma, og öreiginn hins vegar bjargálnamaður. Ef tíminn er svona langur, þá er ekki gott að reikna út, hvernig fara muni. En ef tíminn er styttri, 3 eða kanske 2 ár, þá er hættan meiri fyrir sveitarstjórnirnar, þar sem mikill er innflutningur. Þá er nauðsynlegt fyrir þær að hafa einhverjar hömlur, ef t. d. óreglumaður kemur, eða ómagamaður, sem bersýnilegt er um, að falla muni sveitarfjelaginu til þyngsla svo að segja þegar í stað. Jeg skil það vel, að háttv. 2. landsk. þm. (SJ) þyki ekki þurfa þessa við, því að hann hefir ekki átt því að venjast, að sveitarstjórninar þyrftu að beita hömlum. Það er fátíðara í sveitunum, en í kaupstöðum og sjávarþorpum er oft nauðsynlegt að hafa hönd í bagga með innflutningnum.