01.05.1923
Neðri deild: 54. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1759 í B-deild Alþingistíðinda. (1610)

11. mál, fátækralög

Frsm. meiri hl. (Björn Hallsson):

Nú loksins kemur þetta mál til 2. umr. Vegna anna nefndarinnar hefir það tafist meira en hún hefði viljað. Meiri hl. álitið er dagsett 11. apríl, en minni hl. 24. sem. En til nefndar mun frv. hafa komið 17. mars. En nú hefir frv. hvað eftir annað dagað uppi á dagskránni. Nefndin hefir rætt það rækilega, en ekki orðið alls kostar á eitt mál sátt. Eins og kunnugt er, lagði hæstv. stjórn frv. fyrir háttv Ed. í byrjun þings. Var stjfrv. breytt þar allmikið; feldar úr því 4 fyrstu gr. Voru í 1. gr. ákvæði um það, hvaða undantekningar skuli vera frá því, hvað kalla beri sveitarstyrk, t. d. skuli það ekki teljast sveitarstyrkur, sem veittur er vegna ómegðar, heilsubrests eða elli. Þetta feldi hv Ed. úr frv. og hefir nefndin hjer ekki viljað taka þessi atriði upp aftur. Því þó ýmislegt mæli með sumum þessum breytingum, þá er svo auðvelt að misbrúka þetta, t. d. er ekki æfinlega ómegð um að kenna, ef menn verða þurfandi: þar getur atvinnubrestur og fleira valdið. Þá feldi hv. Ed. líka niður 2. gr., sem ákvað, að sveitarstyrkur teldist ekki, þótt maður yrði þurfandi eftir 65 ára aldur.

Nefndin telur rjettara að efla ellitryggingarsjóðina sem mest heldur en fara þessa leið. Þetta atriði var því ekki svo tæmandi, að nefndin vildi taka það upp aftur, á móti hv. Ed. Eitt af því, sem breytt var í hv. Ed. frá því, sem var í stjfrv., var það, að aldurstakmarkið, þegar menn byrjuðu að vinna sjer sveit, byrjaði við 16 ár, en ekki 21, eins og stjórnin lagði til. Nefndin í heild fjelst á þessa breytingu.

Þá kem jeg að því atriðinu, sem mestum ágreiningi hefir valdið fyr og síðar: og það er lengd sveitfestistímans. Stjfrv. ákvað hann 5 ár, en hv. Ed. breytti honum í 3 ár. En meiri hluti nefndarinnar hjer hallaðist að því, að varlegra væri að fara ekki lengra niður en í 5 ár, en minni hl. eða hv. 1. þm. Rang. (GunnS), vildi samþykkja frv. Ed. óbreytt. Þar skildu leiðirnar. Þessi ágreiningur um sveitfestina er ekki nýr, eins og kunnugt er. Milliþinganefndin í fátæramálunum frá 1901 klofnaði á þessu atriði. Vildi meiri hl. hafa sveitfestina 2 ár, en minni hl. 10 ár. Samt samdi nefndin þá frv., þar sem sett voru 2, og var það lagt fyrir þing 1905 og samþykt. En stjórnin getur þess í athugasemdunum, að hún sje ekki samþykki þessu atriði, en vildi bera sig saman við þingnefndir um þetta. En þær lögðu báðar til, efri og neðri deildar nefndir, í þessu máli, að sveitfestin yrði sett 10 ár.

Eins og kunnugt er, hefir verið mikið los og hringl á fólki nú undanfarin ár. Fara menn nú svo að segja landshornanna á milli til þess að leita sjer atvinnu, og þá einkum að sjá varsíðunni, vegna þess, að landbúnaðurinn hefir ekki getað kept við sjávarútveginn ræð kaupgjald ná undanfarið. Fólki hefir því fækkað í sveitunum að sama skapi, sem því hefir fjölgað í kaupstöðum. Þeim hefir því fækkað, sem vistfastir eru, og einnig þeim, sem vinna sjer sveit með 10 ára sveitfesti. Þess vegna fjelst öll nefndin á það, að rjett væri að stytta sveitfestistímann að mun, til þess að ekki kæmi eins oft til kasta fæðingarhreppsins og nú er. Hins vegar telur meiri hlutinn varlegra að fara ekki lengra í bili en ofan í 5 ár. Það er hægra að bæta við síðar, ef þetta reynist of stutt farið, heldur en að lengja hann aftur, ef nú væri of langt farið í einu. Meiri hl. álítur líka, að ekki yrði unt að komast hjá því, að bæjar- og sveitarfjelög setji skorður við innflutningi, ef sveitfestin yrði færð niður í 3 eða 2 ár. En það verður meiri hl. að telja mjög athugavert, vegna afkomu fátækra manna, því hann vill ógjarnan verða til þess að hindra þá frá að leita sjer atvinnu þar, sem þeir geta best fleytt sjer og sínum áfram. Hins vegar telur meiri hlutinn, að fólksstraumurinn úr sveitunum í kaupstaðina sje of mikill, og því sje rjett, að nokkur afturkippur komi í hann. En þar sem hins vegar er nú deyfð yfir atvinnuvegum sveitamanna, telur meiri hl. sveitirnar tæplega færar til að taka við öllu því fólki, sem yrði bolað úr kaupstöðunum, ef hömlur yrðu settar á veru manna þar og innflutning. Gæti það jafnvel leitt til nýs útflutnings úr landinu, og að því vill meiri hl. ekki stuðla. Hins vegar getur enginn sagt með vissu um það, hvort 3 eða 5 ár muni reynast betur, en gætilegra virðist að fara ekki alt of langt í einu eða í svip, enda gæti það valdið of mikilli byltingu. En kapp legg jeg ekki á þetta, fyrir mitt leyti, því að jeg vil stytta sveitfestina, og helst á þessu þingi. En hvað svo sem því líður, virðist mikil bót að því fyrir sveitirnar að fá sveitfestistímann styttan um helming. Mundu þá margir vinna sjer sveit, sem nú eiga aðeins fæðingarhrepp. En ef menn fá hinsvegar ekki að njóta nægilegs frelsis til þess að leita sjer atvinnu, getur það bæði skaðað sjálfa þá og leitt til þess aftur, að sveitarþyngslin aukist, ef sveitfestin er færð of langt niður.

Versta agnúann, sem um er að gera í lögunum, telur nefndin þó hrakning fátæklinganna, sem ekki er samboðinn þeim tíma, sem nú er og vinnur eins mikið að mannúðarmálum og hann gerir. Jeg þekki mörg dæmi þess með 10 ára sveitfestinni, að sveitarstjórnirnar fara að reyna að sporna við fátæklingunum, þegar þeir eru að því komnir að vinna sjer sveit, og mundi þetta verða enn þá meira, ef sveitfestistíminn yrði styttur mikið. Vafningaminst fyrir sveitarstjórnir yrði það auðvitað, ef sá siður yrði upp tekinn, að láta dvalarhreppinn ráða sveitfesti. En af því gæti aftur leitt það, að ýmsir menn mundu alls ekki fá neitt heimilisfang, en verða blátt áfram á flækingi.

Háttv. minni hl. telur það heppilegast og affarasælast fyrir þjóðfjelagið, að hafa sveitfestina sem stysta, 3 ár eða minna. En af því, sem jeg hefi tekið fram hjer að framan, tel jeg mikinn vafa á því, hvort hann er þar ekki á villigötum. En um það getur hvorugur okkar dæmt til fulls; aðeins dregið ályktanir eftir líkum. Ýmsir sveitamenn vilja alls ekki stytta sveitfestina. Telja þeir, að þetta sje að eins tímaspuismál, þar til afturkippur kemur í þetta aftur. Nú er fólkið flest við sjóinn, og þar eiga börn nú fæðingarhrepp, sem þau lenda þá á seinna, ef með þurfa.

Svo skal jeg leyfa mjer að víkja stuttlega að því, sem eitt blað hjer í bænum (Tíminn) hefir verið að narta í mig út af þessu máli. Það sagði, að eini bóndinn, sem í allsherjarnefnd væri, hefði látið „hafa sig til þess að vera framsögumaður meiri hl. nefndarinnar“. Jeg er að vísu ekki vanur að skifta mjer af því, hvernig það blað eða önnur dæma um mig, en það vil jeg segja þeim, sem þetta hefir skrifað, hvort sem ritstjórinn hefir gert það eða annar, að ef hann hefði aldrei látið hafa sig til meiri ósvinnu en þetta er, mundi blað þetta vera vinsælla en raun ber vitni. Annars hefi jeg litið öðruvísi á skyldur þm. við þingstörfin en svo, að þeir gætu neitað að hafa framsögu í málum í deildinni eða önnur nefndarstörf, ef kosnir væru til þess. Jeg tel mig heldur ekki þingmann bænda eingöngu, heldur verði jeg að líta á hag alls landsins jafnframt og á þeirra hag.

Um einstakar brtt. skal jeg ekki fjölyrða mjög að sinni. Þess er getið stuttlega í nál. um brtt. háttv. þm. Str. (MP), að nefndin geti ekki fallist á þær. En hún hefir athugað þær jafnframt frv. sjálfu. Þær fara meðal annars fram á það, að taka Kleppshælið og gamalmennahælið undir sama lið og önnur sjúkrahús. Meginástæða þess, að nefndin getur ekki fylgt þessu, er sú, að meiri hl. vill ekki ganga inn á þá braut, að taka framfærsluskylduna af sveitarfjelögum og einstaklingum, sem hafa nú skyldu til að framfæra gamalmennin. Landssjóður hefir nóg á sinni könnu samt, og auk þess er hjer um að ræða unga og óreynda stofnun, þó í góðum tilgangi sje. Hitt er rjett og nauðsynlegt, að efla ellitryggingarsjóðina sem mest að unt er.

Þá er geðveikrahælið. Ef það er tekið undir ákvæði sveitarstjórnarlaganna á sama hátt og venjuleg sjúkrahús, kemur fram allmikið misrjetti gagnvart þeim sjúklingum, sem ekki komast í geðveikrahælið, en verða að dvelja heima. Með þeim verður oft að borga miklu meira heima en greiða þarf í hælinu. Slík breyting gæti því þá fyrst komið til greina, þegar búið væri að stækka hælið, svo að það fullnægði kröfunum, en yfirleitt verður þó að teljast vafasamt, hversu langt á að ganga í þessa átt. Þar sem nú líka á að borga á þennan hátt fyrir 4 sjúklinga mest úr hverjum hreppi samkvæmt lögum frá 1921, þá er augljóst, að misrjetti kemur þar fram á milli lítilla og stórra sveitarfjelaga og kaupstaða, og er það ein af ástæðunum móti þessari breytingu.

Þá eru 2 aðrar brtt. Önnur á þskj. 457. frá háttv. 2. þm. Reykv. (JB), og hin frá háttv. þm. Dala. (BJ). á þskj. 429. Jeg hefi ekki átt kost á því, að bera mig saman við nefndina um brtt. háttv. þm. Dala., en sjálfur hallast jeg að henni, því að eins og nú standa sakir, er næstum því ómögulegt að fá þurfaling fluttan á sveit fátækraflutningi, og verða svo sveitarfjelögin þau, sem þeir eiga sveit, að borga oft með þeim margfalt gjald við það, sem væri, ef þau fengju þurfalingana heim. Hafa læknar fengið ámæli fyrir það, að vera of fúsir á að gefa vottorð sín um það, að þurfalingar sjeu ekki ferðafærir.

Um brtt. háttv. 2. þm. Reykv. er ekki margt að segja. Hann hefir aðeins tekið þar upp 2 fyrstu greinar stjfrv., er feldar voru úr því í háttv. Ed. Meiri hl. nefndarinnar getur ekki fallist á þær og hefir áður skýrt frá því, hvers vegna honum er það ekki hægt.

Mun jeg svo ekki orðlengja meira um þetta. Hefi jeg forðast að vekja deilur, ég vonast jeg til, að umr. fari hóglega fram og þm. haldi sjer við efnið.