01.05.1923
Neðri deild: 54. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1770 í B-deild Alþingistíðinda. (1613)

11. mál, fátækralög

Magnús Pjetursson:

Mjer kom það dálítið undarlega fyrir sjónir, er jeg sá það af nál. meiri hl. allshn., að hún lagði á móti brtt. mínum, einkanlega er engin rök voru að því færð, hvers vegna meiri hl. nefndarinnar væri á móti þeim. Jeg hjelt, að þessi rök myndu nú koma fram í ræðu hv. frsm. meiri hl. (BH), en þau fyrirfundust ekki, og hann gekk algerlega fram hjá stærsta atriðinu í brtt. mínum.

Held jeg, að hv. nefnd — sem henni er vorkun, því að hún hefir mikið að starfa — hafi alls ekki verið ljóst, hvaða rök lágu fyrir hjá mjer. Á jeg ef til vill þá sök á því, að jeg talaði aldrei við nefndina, en jeg áleit, að þess væri ekki þörf, sökum þess hve ástæðurnar voru augljósar.

Það, sem fyrst er að athuga hjer, er það. hve þörfin á sjúkrarúmum er mikil. Er þetta kunnugt frá umr., sem urðu hjer um landsspítalann.

Er hin mesta þjóðarnauðsyn á þessu og má ekki dragast úr hömlum, ekki síst þegar hægt er að auka sjúkrarúmin með litlum eða jafnvel engum tilkostnaði.

Er það mjög oft, að sjúklingar eru lagðir í sjúkrahús, þótt engin brýn nauðsyn sje á því. Sjúklingarnir eru hafðir þar vegna þeirra ákvæða fátækralaganna, sem kveða svo á, að ríkissjóður greiði meðlagið, ef sjúklingurinn er í sjúkrahúsi, en hlutaðeigandi sveitarfjelag skuli greiða hann, ef hann er tekinn þaðan, og það enda þótt hann haldi áfram að vera undir læknishendi.

Í fyrra komu ýmsir merkustu læknar hjer í Reykjavík sjer saman um að bera fram brtt. við fátækralögin þessa efnis, sem myndi hafa haft það í för með sjer, að sjúklingar þeir, er nú eru í sjúkrahúsum eingöngu vegna mannúðar eða vorkunsemi við hlutaðeigandi sveitarfjelag, myndu fara þaðan og rýma með því fyrir öðrum, er meiri hafa þörfina.

Heyrði jeg ekki, að hv. frsm. meiri hl. (BH. mintist á, að ríkissjóður skyldi kosta að jöfnu þá menn, sem utan spítala eru, sem hina. Er þetta nú tekið upp í berklavarnalögin og er mjög nauðsynlegt meðan sjúkrastyrkur er ekki nógur. Er sjálfsögð skylda að laga þetta og tilkostnaðurinn er mjög lítill.

Getur hæstv. stjórn upplýst, að þetta er rjett hvað berklavarnalögin snertir. Eru sjúklingar samkv. þeim lögum jafnstyrkháir, þótt þeir sjeu ekki í sjúkrahúsi, ef þeir eru til lækninga utan heimilis síns. t. d. til ljóslækninga hjer í Reykjavík.

Skil jeg ekki, að hv. þm. verði á móti brtt. mínum, eins og jeg nú hefi skýrt þær, því að með þessu móti væri hægt að bæta úr sjúkrarúmaþörfinni í landinu.

Þá kem jeg að öðru atriði þessa máls, því, að jeg tel rjett vera, að sjúklingar á Kleppi og Litla-Kleppi njóti sömu rjettinda að lögum og aðrir sjúklingar, sem þurfa sjúkrahúsvistar með. Mjer kemur rökfærsla háttv. nefndar allundarlega fyrir sjónir, að vilja ekki láta þessa sjúklinga njóta sömu rjettinda og öðrum sjúklingum eru heimiluð í sjúkrahúsum að lögum, og svo þetta, að nefndin telur það misrjetti, ef þeim yrðu veitt þessi rjettindi. Það er sýnilega þessi gamla hugsun, að ef einn maður hefir orðið illa úti, þá þurfi að beita alla aðra órjetti, til þess að breiða með því yfir, hvernig um þennan mann hefir farið. Þetta hefir oft komið fyrir áður, og jeg verð að telja þennan hugsunarhátt algerlega óþinghæfan og óviðeigandi, hvar sem hann kemur fram. Þetta misrjetti hefir átt sjer stað síðan Kleppsspítalinn var stofnaður. Þá var ákveðið í lögum, að meðlag með sjúklingum þar væri 50 aurar á dag, þótt hærra gjald væri greitt með þeim áður, og eins þeim, sem ekki komust þar að eftir að spítalinn var stofnaður. Þegar um aðra sjúklinga hefir verið að ræða, hefir sveitarfjelögunum verið gert að greiða með þeim um 200 kr. á ári, en með lögunum um Klepp þurfti nú ekki að greiða eins mikið með sjúklingnum þar. Nú ætlast jeg til þess, að allir yrði jafnhart úti, eða með öðrum orðum, allir verði í þessu efni jafnt settir, einn hvorki betur nje miður en annar.

Jeg veit, að þessi röksemdafærsla nefndarinnar fær alls ekki staðist dóm deildarinnar. Jeg treysti mjer ekki til að fara út í lagaskýringar, þar sem jeg er ólöglærður maður, en jeg veit hitt, að Alþingi fær ekki lækkað ákvæði laganna í þessu atriði með fjárlagaákvæðum. Þó tilraun yrði gerð til þess, mundi Alþingi aldi sjá sjer fært að gera það nema með sjerstökum lögum. Nægir að benda á launalögin þessu til sönnunar. Það er því ekki hægt að breyta þessu niður á við, til lækkunar, öðruvísi en með lögum. Jeg er ekki lögfróður, eins og jeg hefi þegar tekið fram, en þó þyrði jeg að fara í mál við ríkisstjórn um það, að sveitarfjelögin þyrftu ekki að greiða nema 50 aura á dag með sjúklingunum, því jeg álít, að eigi sje hægt að trássast við gildandi lög um þetta. (MG: En fjárlögin eru líka lög). Að vísu, en önnur lög eru þó ríkari, og jeg veit ekki til, að það sje venja, að þau nemi úr gildi eldri lög. Sýnist mjer því þetta vera dómstólamál, eða geta orðið það, ef menn vildu. En til þess að hægt sje að koma fullri sanngirni að í þessu, vil jeg binda enda á þessa deilu og lögfesta þetta í fátækralögunum, eins og um alla aðra sjúklinga.

Þá kem jeg að gamalmennahælunum. Hv. frsm. meiri hl. (BH) virðist mjer hafa misskilið þetta atriði og tilgang minn með því. Háttv. deildarmenn munu hafa sjeð, að það er gert ráð fyrir því, að þeir, sem eru í gamalmennahælunum, geti orðið aðnjótandi styrks úr ríkissjóði, ef þeir hafa verið sendir í hælin að læknisráði. Á að láta gilda sömu reglur um þá, sem í gamalmennahælunum eru, og um önnur gamalmenni, sem tekin eru í sjúkrahús vegna þess að þau hafa ekki átt kost á nauðsynlegri aðbúð í heimahúsum. Ættu þau frekar að eiga vist í gamalmennahælum, ef þau eru ekki öðruvísi sjúk en það, að þau þurfi góðrar hjúkrunar við; þetta gæti því sparað rúm í sjúkrahúsunum. Það er oft, að þau gamalmenni, sem í sjúkrahús koma, eru þar á kostnað sveitarfjelaganna, en yrðu þessi ákvæði sett inn í fátækralögin, ætti þetta eigi að teljast til sveitarstyrks. Það eitt hygg jeg ætti að nægja mörgum háttv. þm. til þess að samþykkja þetta, að með þessu losa þeir mörg vesalings gamalmenni, sem búin eru að þræla meiri hluta æfi sinnar baki brotnu, við það að verða sveitlæg síðustu ár æfinnar. Það vita allir, hversu það mundi gera þeim ellina ljettbærari.

Háttv. frsm. minni hl. (GunnS) kom með dálítið nýstárlegar upplýsingar í þessu máli, sem jeg var allhissa á að heyra, þegar hann sagði, að hann og flokksmenn hans hefðu bundist samtökum um að láta ekki fleiri breytingar ná fram að ganga á þessu þingi, nema stytting sveitfestistímans. Þessháttar hlutir hafa að vísu skeð hjer áður, t. d. nú nýlega í stjórnarskrármálinu. En nú skil jeg ekki, hvernig hv. þm., móti sannfæring sinni, geta bundist samtökum og greitt atkvæði móti brtt. sem þeir eru sannfærðir um, að fela í sjer miklar rjettarbætur. (HK: Svo getur þó staðið á stundum). Já, svo segir háttv. þingmaðurinn, en þeir ættu þá að eiga víst að eiga setu hjer á næsta þingi, ef þeir ætla að láta þetta bíða þangað til. Jeg skil ekki þennan hugsunarhátt háttv. þm., að vilja sporna á móti breytingum á lögunum, sem þeir telja þó vera rjettmætar. Jeg get ekki sjeð, að mínar brtt. eigi minni rjett á sjer en stytting sveitfestistímans; mjer finst hann mætti þá eins bíða eins og annað. Jeg skil heldur ekki þann hringlandahátt, að vilja vera að breyta lögunum á hverju ári. Þá er og þetta, að þora ekki að vera með þessum brtt. mínum af ótta við Ed. Jeg greiði atkvæði samkvæmt sannfæringu minni, en eigi eftir vilja eða óskum Ed. „Kosningarnar“ sagði einhver háttv. þm. Það kann að vera það, að þeir vilji aðeins taka þeim breytingum, sem mest ber á í augum kjósenda. Jeg held nú, að það yrði lítið betra afspurnar en hitt, að svo eigi að fara að grauta í þessu aftur á næsta þingi Jeg vænti þess, að ef ekki kemur til atkvgr. um þetta mál fyr en að loknu næsta fundarhljei, að háttv. 1. þm. Rang. (GunnS) kalli saman flokksfund til þess að taka aftur þessa ákvörðun þeirra.

Um brtt. háttv. 2. þm. Reykv. (JB) gæti jeg hugsað, að hæstv. forseti teldi, að hana mætti samþykkja án atkvgr., að minsta kosti fyrri liðinn.