01.05.1923
Neðri deild: 54. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1789 í B-deild Alþingistíðinda. (1620)

11. mál, fátækralög

Atvinnumálaráðherra (KLJ):

Í tilefni af því, sem háttv. þm. Str. (MP) sagði, að jeg hefði haldið því fram, að allir sjúklingar á landinu utan heimilis síns kæmust undir ákvæði þessara laga, ef brtt. hans yrðu samþyktar, skal jeg geta þess, að hafi jeg sagt þetta, þá hefir mjer auðvitað orðið mismæli, sem jeg vil leyfa mjer að leiðrjetta hjer með. Jeg átti við alla þá sjúklinga, sem væru styrks þurfandi og færu í sjúkrahús eftir læknisráði.

Það er rjett hjá háttv. þm., að ákvæðið um, að þessi styrkur sje ekki afturkræfur, er ekki frá honum, heldur er það tekið upp úr 78 gr. fátækralaganna frá 1905, en athugasemd mín var jafnrjettmæt fyrir því. Er það eitt af þeim atriðum, sem nauðsynlega þarf að breyta, ef lögin verða endurskoðuð.