03.05.1923
Neðri deild: 56. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1792 í B-deild Alþingistíðinda. (1626)

11. mál, fátækralög

Frsm. meiri hl. (Björn Hallsson):

Nú hafa ræðurnar orðið nokkuð í styttra lagi undanfarið, og er það gott til eftirbreytni. Vil jeg minnast lítið eitt á brtt., sem fram hafa komið, og mun reyna að vekja ekki miklar umræður.

Það er fyrst brtt. frá háttv. þm. Str. (MP); er hún næstum því hin sama og kom fram frá honum við 2. umr. þessa máls, og því kunn þaðan. Aðeins hefir verið felt úr henni nú ákvæðið um sjúkrahúsrjett gamalmennahælisins. Jeg tel óþarft að ræða þessa brtt., bæði vegna þess, sem jeg sagði um hana við 2. umr., og vegna þess, að jeg hefi ekki átt kost á að tala um hana eins og hún er nú við 2. umr. Að öðru leyti býst jeg við, að nefndin greiði atkvæði um hana á sama hátt og áður, því þó að felt hafi verið úr henni það ákvæðið, sem jeg lagði mest á móti, eru þó ýmsir annmarkar eftir enn, og vil jeg í því vísa til ástæðna minna, sem jeg færði fram við 2. umr., og svo hins, að meiri hl., og líklega öll nefndin, vill breyta frv. sem minst, til þess að stríða ekki Ed. um skör fram. Og þó mjer sje í rauninni ekki kappsmál um þessa breytingu, vil jeg ekki láta málið stranda í Ed. þess vegna Er því óþarft að fara fleiri orðum um þetta.

Þá er brtt. frá háttv. þm. Dala. (BJ) á þskj. 514, og er þar sama að gegna um hana, að nefndin hefir ekki rætt hana, en jeg greiði henni atkvæði, eins og jeg var búinn að taka fram við 2. umr., þar sem jeg er þessu máli hlyntur. vegna þess, að mjer er kunnugt, hversu oft er erfitt að fá þurfaling fluttan fátækraflutningi. Hafa læknar jafnvel fengið ámæli fyrir það, að vera of greiðugir á að gefa vottorð um það, að þurfalingar væru ekki flutningsfærir. Verða svo sveitir þær, sem eiga að sjá um framfærslu þeirram oft að greiða tvöfalt meðlag með þeim í aðrar sveitir eða bæi, við það sem væri, ef þurfalingurinn fengist fluttur. Mun jeg því greiða þessari till. atkvæði. Geri jeg ekki ráð fyrir, þótt þessi brtt. verði samþykt, að það geti orsakað árekstur milli deilnanna.

Þar næst kem jeg að brtt. frá háttv. 1 þm. Rang. (GunnS), og er hún miðlunartillaga milli atkvgr. Ed. um sveitfestistímann, og Nd. við 2. umr. um hana hefir nefndin óbundnar hendur. Jeg fyrir mitt leyti er henni hlyntur og vil hana heldur en frv. Ed , og legst því ekki á móti henni. Það er að mínu áliti ekki auðvelt að segja, hvað er best. 3–4 eða 5 ár; úr því verður reynslan að skera, hvað best reynist í þessu efni, er enginn getur um það sagt fyrirfram. Fari svo, að þetta mál komi fyrir Sþ., býst jeg við, að þá yrði samþykt að færa sveitfestistímann niður í 3 ár, eftir fylgi því, sem sú stefna hefir í Ed. En í Nd. var 5 ára sveitfesti samþykt með litlum atkvæðamun. En jeg er sömu skoðunar og áður, og þykir mjer því of langt farið að stíga niður í 3 ár. En jeg vil fá framgang þessa máls á þessu þingi, og legg minna kapp á það, hver áratalan verður ofan á hjá þinginu Held jeg því fram sem fyr, að ekki sje stigið of langt spor í einu, og þykir því hugsanlegt, að það geti skeð, að Ed. fallist á að hafa sveitfestistímann 4 ár, og verði það ofan á þar, þarf málið ekki að koma fyrir Sþ. Er þá girt fyrir það, að sveitfestin verði færð í 3 ár, og því þykir mjer þessi breyting skárri en frv. Ed.