26.03.1923
Neðri deild: 29. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1798 í B-deild Alþingistíðinda. (1636)

43. mál, vegir

Frsm. meiri hl. (Þorsteinn Jónsson):

Samgöngumálanefnd hefir ekki getað orðið á eitt sátt um frv. þetta. Öll hefir nefndin þó orðið á móti brtt., en meiri hlutinn vill láta frv. ná fram að ganga, en minni hl. leggur á móti því. Eins og getið er um í greinargerð nefndarinnar, þá hefir nefndin leitað álits vegamálastjóra, og vill hann ekki láta frv. ná fram að ganga á þessu þingi, sökum þess kostnaðar, sem af því mundi leiða, þó hann hins vegar teldi breytinguna ekki ósanngjarna. Auðvitað var oss, bæði flm. og meiri hl. nefndarinnar, altaf ljóst, að þetta yrði kostnaðarauki fyrir ríkissjóð, en á hinn bóginn væri það svo mikið sanngirnismál og rjettlátt, að sjálfsagt væri að samþykkja það.

Þá eru það brtt., sem jeg vil víkja að nokkrum orðum. Hvað Hafnarfjarðarveginum viðvíkur, þá er hann þegar lagður, og yrði það því aðeins viðhald, sem kæmi til greina. Um veginn á Barðaströndinni, sem háttv. þm. Barð. (HK) vill gera að þjóðvegi, er það að segja, að hann liggur víða yfir fjöll, sem eru slæm yfirferðar, og vegagerð er þar því mjög erfið, enda mun ekki verða miklu til hennar kostað, nema að brúa nokkrar ár. Þá er það vegurinn frá Bitrufirði til Steingrímsfjarðar; hann liggur allur með ströndum fram og er ekki annað í eðli sínu en sýsluvegur. Báðir þessir vegir þræða alveg strandlengjuna, en það hefir aldrei verið ætlunin að láta þjóðvegina ná út á öll annes. Annars vona jeg, að háttv. deild sjái sjer fært að greiða atkvæði með frv. og henni verði ljós sú sanngirni, sem í því felst. Meira finn jeg ekki ástæðu til að taka fram, því aðalatriði málsins tók jeg fram við 1. umr. þess.