26.03.1923
Neðri deild: 29. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1799 í B-deild Alþingistíðinda. (1637)

43. mál, vegir

Frsm. minni hl. (Sigurður Stefánsson):

Jeg skal lofa hv. deild því að vera ekki langorður. Aðalmunurinn, sem skilur meiri hlutann og minni hlutann að, er sá, að meiri hlutinn metur einskis álit vegamálastjóra, en minni hlutinn telur rjettast að taka tillit til álits hans, eins og vera ber, þar sem enginn hefir vitanlega betra tækifæri til að kynna sjer slík mál en hann. Minni hlutinn lítur svo á, að þó nokkur sanngirni kunni að mæla með þessu, þá er svo margt í landi voru, sem svo er ástatt um, en þó verður að bíð betri tíma. En ef frv. væri samþykt, þá myndi líka ef til vill vera sanngirniskrafa, að brtt. næðu fram að ganga. En það er ekki talið fært að leggja út í þann kostnað, sem leiðir af upptöku þessara nýju vega í vegakerfið, eins og fjárhag okkar nú er farið. Það er líka nokkurn veginn víst, að hefði þetta frv. ekki komið fram, þá hefðu brtt. ekki borist að heldur. Og þétt vegamálastjóri telji ef til vill einhverja sanngirni mæla með þessari viðbót í þjóðvegakerfið, þá hefir hann sjeð, að því verði að fresta sökum fjárhagsástæðnanna. Mig minnir, að í fyrra væri hjer í þinginu sá hugsunarháttur ríkjandi, að fara bæri sem varlegast í ný útgjöld, en ekki hefir fjárhagsástandið batnað frá því, sem þá var. Brýn nauðsyn í samgöngumálum er það, að halda við þeim vegum, sem þegar eru lagðir. Og þó leitt sje að geta ekki haldið í horfinu, þá er það fjárhagurinn, sem neyðir oss til að fresta þeim framkvæmdum, sem hjá verður komist, meðan ástandið batnar ekki. Á þetta jafnt við um ríkið og einstaklingana, að þeir verða að sníða sjer stakk eftir vexti. Annars vil jeg ekki fjölyrða frekar um þetta að svo stöddu.