26.03.1923
Neðri deild: 29. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1804 í B-deild Alþingistíðinda. (1640)

43. mál, vegir

Benedikt Sveinsson:

Þetta vegamál, sem hjer er um að ræða, er orðið mikið áhugamál manna norður þar og hefir oft verið vakið áður, þótt ekki hafi það náð fram að ganga. Nú hafa komið áskoranir til Alþingis úr öllum sveitum norðan við Smjörvatnsheiði og alt til Reykjadals um upptöku þessa þjóðvegar, og sýnir það best nauðsynina á honum. Viðvíkjandi því, að ekki hafi verið nein „gloppa“ í vegalögunum í þessu atriði, þar sem meginhugsun þeirra hafi verið sú, að hafa einfalda þjóðvegalínu umhverfis landið, þá vil jeg aðeins segja það, að slíkt getur tæpast verið neitt grundvallaratriði, að hafa vegalínuna aðeins einfalda, enda hefir þessari frumreglu alls ekki verið fylgt, því að línan er þegar frá upphafi tvöföld sumstaðar, og sje jeg engin missmíði á, þótt svo sje, þar sem það er nauðsynlegt sakir staðhátta. Annars mun jeg alls eigi leggjast á móti því, að vegurinn frá Reykjahlíð og austur á Jökuldal sje tekinn í tölu fjallvega, og þá kemur nýi þjóðvegurinn á engan hátt í bága við „frumreglu“ vegalaganna.

Að öðru leyti er það ekki samanberandi, hversu þessi nyrðri vegur er langtum fjölfarnari en öræfavegurinn, sem hverjum manni er augljóst, þar sem hann liggur allur um bygðir eða þá fjallvegi bygða á milli, en hinn um sanda og öræfi, fjarri mannabygðum. Hjer eiga þrjú sýslufjelög hlut að máli. Það er alls ekki tilætlun þeirra að heimta þegar dýra vegi á þessari leið, heldur að fá veginn lagaðan þar, sem nauðsyn krefur, og torfærur brúaðar, eins og vegalögin mæla fyrir.

Jeg vona því fastlega, að þegar háttv. deildarmenn hafa athugað málið, veiti þeir því fylgi sitt.