26.03.1923
Neðri deild: 29. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1805 í B-deild Alþingistíðinda. (1641)

43. mál, vegir

Magnús Pjetursson:

Mjer virðist svo sem háttv. meiri hluta hafi verið allmjög mislagðar hendur. Jeg get skilið þá, sem ekki vilja gera neinar breytingar á vegakerfinu, en ekki hina, sem aðeins vilja taka út úr einhvern einstakan veg, en láta hina sitja á hakanum, sem þó kunna að eiga eins mikla sanngirniskröfu. En þetta mun koma af því, hvernig nefndin er skipuð. Jeg þarf að öðru leyti ekki að fjölyrða um málið alment, því jeg er að mestu leyti sammála hv. minni hl. og ræðu háttv. 3. þm. Reykv. (JÞ) um það, að það, sem aðallega veltur hjer á, er þetta, hvort ríkissjóður er yfirleitt fær um að leggja fram nokkurt fje til nýrra þjóðvega, þó samþyktar væru nýjar breytingar, sem sjálfsagt eru æskilegar, ef á annað borð er unt að framkvæma þær. Jeg hefði því ekki að fyrra bragði átt frumkvæði að breytingum á þessum lögum, en úr því um það er talað á annað borð að breyta, vildi jeg jafnframt benda á það, að nauðsyn ber til fleiri breytinga, þar á meðal þarna á Vesturlandinu, eins og brtt. mín sýnir. Og jeg vona, að sú leið fái að fylgjast með, ef á annað borð verður farið að breyta, enda mjög sanngjarnlega í sakirnar farið, að mjer virðist. Það er sjálfsagt árangurslaust að ætla sjer að lýsa staðháttum þarna fyrir þeim, sem ekki eru kunnugir þar á annað borð, enda hefir allmikils ókunnugleika gætt í því, sem hjer hefir verið um þetta sagt, svo sem í því, að það eigi að vera ástæða á móti þessu, að vegirnir liggi með sjó fram. En það er nú ekki gott að sjá, hvernig öðruvísi á að vera, eftir því sem landslagi háttar á Vestfjörðum. Annars skal jeg ekki fjölyrða um þetta, en vænti þess, að hv. deild taki þetta til sanngjarnrar athugunar.