26.03.1923
Neðri deild: 29. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1806 í B-deild Alþingistíðinda. (1642)

43. mál, vegir

Atvinnumálaráðherra (KIJ):

Þegar jeg sá fyrstu tillöguna, sem fram kom í þessu máli, sagði jeg við sjálfan mig, að hún ætti að ganga fram. Jeg er talsvert kunnugur á þessum slóðum og hefi farið þessar leiðir, sem nú er ætlast til, að teknar verði í þjóðvegatölu. Það er líka alveg eðlilegt, að þjóðvegirnir liggi sem mest um bygðir, og það mælir líka með þessari nýju leið, að þá verður hægt að nota í sambandi við hana brúna á Jökulsá, sem er hið versta vatnsfall, sem jeg þekki. En sem sagt, þó mjer virtist svo í upphafi, þegar fyrsta tillagan kom fram, að hún ætti fram að ganga, þá var mjer það um leið ljóst, að ef margar slíkar kæmu á eftir, sem við búið væri, þá myndi hún eiga það á hættu að standa, eða öllu heldur falla, með þeim. Það hefir nú komið á daginn, að margar viðaukatillögur hafa komið fram, og þannig veikt aðaltillöguna. Jeg áleit það nú skyldu mína að bera mig saman við vegamálastjóra um þetta mál, og hefir hann sagt mjer álit sitt um það, sem ber alveg saman við það, sem hann hefir tjáð nefndinni, svo sem vænta mátti. Honum reiknast svo til, að leiðin um Grímsstaði væri um 180 km., en hin fyrirhugaða alt að því 270 km. Það má því búast við, þar sem svo miklu munar á vegalengd, að nýja leiðin verði aldrei langferðavegur, heldur aðeins innansveitarvegur. Samt sem áður verð jeg eindregið að hallast að því, að nýja leiðin verði tekin fram yfir þá gömlu.

Hvað snertir brtt. háttv. 1. þm. G.-K. (EÞ), þá skal jeg geta þess, að vegamálastjóri leggur alveg á móti því, að sá vegur verði gerður að þjóðvegi. Er það af þeim sökum, að þegar hafi verið mikið gert fyrir þennan veg, er 10000 krónum af bifreiðaskattinum var varið til hans árið sem leið, mót 5000 úr sýslusjóði. Eru það 15000 kr. alls, og er það allsæmileg upphæð. Háttv. flm. brtt. tók það fram, að sýslan rísi vart undir þessum kostnaði, sem hún hefði að bera af þessu og ýmsu öðru, og væri hún nú komin í sökkvandi skuldir. Það mun rjett vera. En alt það eru ekki tiltök að gera þennan veg að þjóðvegi. Hvað það snertir, að mest umferð sje um þennan veg af öllum vegum landsins, þá skal jeg játa, að umferðin um hann er geysimikil, en þó býst jeg við, að finnast muni vegir, sem verða að sæta jafnmikilli umferð. Það, sem líka mælir móti þessu, er það, að það myndi óefað draga dilk á eftir sjer, ef farið væri að gera slíka vegi sem þennan að þjóðvegum. Aðrir myndu ugglaust koma á eftir, og svo koll af kolli. Háttv. flm. brtt. sagði, að haldið myndi verða áfram að biðja um þetta, ef því yrði nú neitað, þar til er það hefðist fram. Já, ef háttv. þing ætlaði sjer að taka upp þá stefnu að láta undan einni saman þrábeiðni, þá væri eins rjett að geta það strax. En jeg efast um það, að sú stefna verði tekin, og býst jeg því við, að langt verði þangað til þessi bón verði veitt.

Að því er snertir brtt. háttv. þm Barð. (HK), skal jeg taka það fram, að vega málastjóri kveður mjög litla umferð um þann veg, og því litla ástæðu til að gera hann að þjóðvegi. Hins vegar kvað hann þurfa að byggja nokkrar brýr yfir smáár, sem þar væru, og væri ekkert á móti, að sýslubúum væri veittur nokkur styrkur til þess síðar.

Þá hefir og komið fram viðaukatill. frá háttv. þm. St., (MP). Jeg verð að taka það fram, að jeg hefi farið yfir Bitruháls, og er það einhver hinn versti vegur, sem jeg hefi farið. Og hafi ekki verið gert við þann síðan jeg fór þar um, þá er sjálfsagt engin vanþörf á að fara til þess, hvort sem landið lætur gera það eða sýslan. Samt er vegamálastjóri á móti því, að þessi vegur sje gerður að þjóðvegi, af þeirri ástæðu, að vegagjöld sýslunnar sjeu svo ljett, að þetta sje eini vegurinn, sem hún þarf að kosta viðhald á.

Það er yfirleitt sú aðalástæða, sem vakir fyrir vegamálastjóra og mjer, að ekki sje kleift að taka aðra eins vegi upp á arma ríkissjóðsins, nema þá að jafnframt sje aukið tillagið til vegagerða í fjárlögunum. Ella yrðu slík lög sem þessi hreint pappírsgagn. Því hvað þýðir að gera lög um, að ríkið haldi við þessum vegum, ef tugir ára verða svo að líða án þess það sje gert? Afleiðingarnar af slíkum breytingum á vegalögunum yrðu aðeins þær, að fram kæmu fleiri beiðnir, og myndi það því aðeins verða til að auka umr. á háttv. Alþingi.

Jeg tel því í rauninni rjettast, að engar breytingar sjeu gerðar nú á þeim lögum, en hitt heppilegra, að taka alt vegakerfið til athugunar í heild og leggja það fyrir Alþingi síðar.