23.04.1923
Neðri deild: 48. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1810 í B-deild Alþingistíðinda. (1648)

43. mál, vegir

Frsm. meiri hl. (Þorsteinn Jónsson):

Það eru komnar fram margar brtt. við þetta frv. í morgun hjelt samgöngumálanefnd fund með vegamálastjóra og ræddi þar við hann um þær brtt. við frv., sem nú liggja fyrir til umræðu. Nefndin var sammála um brtt. frá háttv. þm. N.-Þ. (BSv), um að nema úr þjóðvegatölu veginn frá Fossvöllum að Gilsárbrú á Jökuldal, og að sýslunefnd Norður-Múlasýslu taki þann vegarkafla í sýsluvegatölu, að leiðin frá Breiðamýri til Reykjahlíðar falli úr tölu þjóðvega og að gerð sje að fjallvegi leiðin þaðan um Grímsstaði og Möðrudal yfir Gilsárbrú. Eins og jeg tók fram áður, þá er þessi vegur í eðli sínu fjallvegur. Jeg sje því ekki, að Norðurland og Austurland missi nokkuð að ráði við þessa breytingu. Það er aðeins vegarkaflinn frá Fossvöllum að Gilsá, sem Norður-Múlasýsla mun þurfa að leggja nokkuð til viðhalds á ári hverju, ef hún tekur við honum.

Þá er brtt. á þskj. 378, frá háttv. þm. N.-Þ. (BSv), um að í stað “Reykjaheiði“ í frv. komi: Tunguheiði. Að við settum Reykjaheiði í frv. upphaflega stafaði af því, að við álitum betra að leggja veg yfir hana heldur en yfir Tunguheiði. Hún er sljettari og lægri en Tunguheiði. Þó að Tunguheiði sje hærri og erfiðari, þá er hún styttri, og sá vegur, sem að henni liggur, er meira í bygð. Að öllu þessu athuguðu hefir nefndin komist að þeirri niðurstöðu að mæla með þessari brtt.

Hv. þm. Borgf. (PO) hefir tjáð nefndinni, að hann tæki sína brtt. aftur.

Þá er og brtt. frá hv. þm. S.-Þ. (IngB) á þskj. 406, um að Reykjadalsbraut verði gerð að þjóðvegi, einnig tekin aftur. Nefndin vildi ekki taka þessa braut upp í þjóðvegatölu, heldur fylgja tillögum vegamálastjóra, og hefir háttv. flm. (IngB ) sætt sig við það.

Um hinar aðrar brtt. hefir nefndin í heild ekki tekið neina bindandi afstöðu. En þær geta þrátt fyrir það haft einhvern byr hjá sumum nefndarmönnum.

Jeg vona nú, að þetta mál gangi fram, þar sem ekki er hægt að berja því við lengur, sem gert var við 1. umr. að löghelgaðir þjóðvegir milli Norður- og Austurlands yrðu tveir, ef frv. yrði samþykt óbreytt. En nú legst annar þeirra niður, ef farið verður að ráðum samgöngumálanefndar, og kemur hjer eftir í tölu fjallvega.

Um þennan nýja fyrirhugaða þjóðveg er það að segja, að hann liggur miklu meira um bygðir en gamli vegurinn, og að allir þeir fjallvegakaflar, sem eru á þeirri leið, sem hann liggur um, eru miklu styttri. Allur nýi vegurinn verður í heild sinni nokkru lengri en sá gamli, en kemur margfalt fleiri hjeruðum og mönnum til nota.