23.04.1923
Neðri deild: 48. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1814 í B-deild Alþingistíðinda. (1653)

43. mál, vegir

Þórarinn Jónsson:

Jeg stend upp til að hughreysta þá háttv. þm., sem hjer eiga brtt. Býst jeg við, að þær viðauka- og breytingartillögur, sem enn hafa ekki verið teknar aftur, muni verða feldar, og er það í sjálfu sjer eðlilegt, þar sem margskonar ósamræmi getur myndast, ef einstaka þingmenn beita sjer fyrir því að fá vegaspotta fyrir sín kjördæmi, gegn tillögum vegamálastjóra. Jeg hafði eftir áskorun úr mínu kjördæmi hugsað mjer að koma með brtt., sem var alveg sjálfsögð og í samræmi við fyrirhugaðar breytingar vegamálastjóra á vegalögunum. En við nánari athugun fundum við þó, að þetta hafði þó ekki fengið nægilegan undirbúning. Og eru það venjulega sýslunefndirnar, sem jafnframt breytingunni þurfa að segja sitt orð um hana. Hætti jeg því við brtt., en fjekk í þess stað loforð hjá vegamálastjóra um það, að endurskoða vegalögin og búa þau undir næsta þing, með þessari og fleirum sjálfsögðum breytingum. Finst mjer það eðlilegra og þingmenn geti vel sætt sig við það og beðið eitt ár eftir breytingunni. Jeg get þó greitt frv. atkvæði mitt, þar sem samþykki sýslunefnda þarf til þess, að það komi til framkvæmda.