23.04.1923
Neðri deild: 48. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1819 í B-deild Alþingistíðinda. (1657)

43. mál, vegir

Björn Hallsson:

Jeg skal ekki fjölyrða um þetta mál, enda var það mikið rætt við 2. umr. En jeg vil aðeins minnast á brtt. frá hv. þm. N.-Þ. (BSv), á þskj. 392, við brtt. á þskj. 377, um það, að gamli þjóðvegurinn um Jökuldal og Fjöll falli niður, og ætti þá aðalbrtt. þar með að vera úr sögunni, ef þessi gengur fram. Verður þá sýsluvegur frá Fossvöllum að Gilsárbrú og fjallvegur þaðan í Reykjahlíð. Jeg geri fyrir mitt leyti ekki mikið úr því atriði tillögu þessarar, hvort takmörkin eru sett, eins og þar er, við Skjöldólfsstaði eða Gilsárbrú. Það er ekki um langan veg að ræða milli þeirra staða. En með þessari brtt. er sá agnúi fallinn í burtu, sem hjer var mest færður á móti frv. við 2. umr., þar sem nú á að fella þann þjóðveg, sem nú er, úr þjóðvegatölu, ef frv. verður samþykt.

Þá þarf jeg að víkja fáeinum orðum að háttv. þm. N.-Ísf. (SSt). Hann sagði, í sambandi við það, að ekki mundi verða veitt fje til þessa vegar á næsta ári, að aðalhvöt okkar flm. myndi vera sú, að við vildum kasta glansi á okkur gagnvart kjósendum okkar í þessu máli. Jeg fyrir mitt leyti mótmæli þessu fyrir okkar hönd. Við flytjum þetta mál eftir sannfæringu okkar; teljum það sanngjarnt í alla staði. En þar sem skoðanir okkar falla þar alveg saman við álit kjósenda okkar, þá erum við því fúsari að verða við þeirri ósk Norðmýlinga og Þingeyinga, að fá þessum þjóðvegi breytt. Jeg fyrir mitt leyti tel þingsetu heldur ekki svo eftirsóknarverða, að jeg vilji flytja mál fyrir kjósendur, sem jeg tel alrangt, svo jeg tel þessa hnútu háttv. þm. N.-Ísf. alveg ástæðulausa. En það er ekki óvanalegt, að slíku sje kastað hjer fram.

Annars þarf ekki annað en að líta í þær fundargerðir, sem hjer liggja frammi í lestrarsalnum, til þess að sannfærast um vilja kjósendanna í þessu efni. Þar eru til sýnis fundargerðir úr öllum hlutaðeigandi hreppum.

Vænti jeg svo þess, að frv. þetta verði nú samþykt fyrirstöðulaust.