04.05.1923
Efri deild: 55. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1834 í B-deild Alþingistíðinda. (1689)

93. mál, vegir

Frsm. (Guðmundur Guðfinnsson):

Jeg hefi eigi miklu við að bæta það, sem jeg sagði í framsögunni. En mjer fanst kenna nokkurs misskilnings hjá hv. 2. þm. S.-M. (SHK) um það, að það hafi svo sjerstaklega verið ljett undir með Árnessýsluvegunum 1911. Það var meira í orði en á borði, því að 1911 var aðeins bætt við 10 km. Vegalögin frá 1907 hafa hingað til þótt sem helgur dómur, er eigi mætti hræra við, og hafa þau því verið sá Akkillesarhæll, sem allar breytingar hvað viðhald flutningabrauta snertir hafa strandað á. Sýslufjelögin hafa eigi ráð á því að afla sjer nýtísku vjela til vegagerðar, og geta því eigi annast viðhaldið sem skyldi. Nefndin leggur áherslu á það, að endurskoðun laganna fari sem fyrst fram og að þá yrði viðhaldið á öllum flutningabrautunum sett inn í þau í einu lagi. Nú er annað frv. á ferðinni hjer í þinginu, um þjóðvegi, sem kemur til greina í þessu sambandi.

Háttv. 2. þm. Húnv. (GÓ) gat þess, að þær brautir yrðu síðastar hvað viðhald snertir, sem síðast yrðu fullgerðar. Það er nú svo, að enn er eigi búið að afhenda mörgum sýslufjelögum flutningabrautirnar, og því hefir viðhald þeirra eigi lent á viðkomandi sýslufjelögum. Jeg mun því greiða atkvæði með frv., þrátt fyrir eftirkaupin við næsta þing og stjórn, ef brtt. háttv. 2. þm. S.-M. kemst eigi inn í frv.