25.04.1923
Neðri deild: 50. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1839 í B-deild Alþingistíðinda. (1703)

23. mál, fjáraukalög 1920 og 1921

Frsm. (Jakob Möller):

Það er gerð nokkur grein fyrir áliti nefndarinnar á þskj. 351, og hefi jeg ekki miklu við það að bæta almenns efnis. Jeg vil þó vekja athygli háttv. deildar á því, að það virðist ekki heppilegt fyrirkomulag við endurskoðun landsreikninganna, að enginn af hinum þremur yfirskoðendum, sem bæði eiga að framkvæma kritiska og tölulega endurskoðun þeirra, skuli eiga sæti á Alþingi. Því að því leyti sem hægt væri að koma við „kritiskri revision“, þá yrði það fyrir aðstoð þess endurskoðandans, sem sæti ætti á Alþingi, því að ómögulegt er fyrir þingnefnd, sem er önnum kafin, að framkvæma slíka rannsókn; það yrði einungis málamyndaverk, því á reikningnum sjest einungis, hvað greitt hefir verið úr ríkissjóði, hvað áætlað hefir verið og hvað ekki hefir verið áætlað. Þarf það því meiri rannsóknar en hægt er að gera af einni þingnefnd.

Hvað snertir fjáraukalögin fyrir 1920 og 1921, sem svo mjög hafa verið gerð að umtalsefni, sökum þess, hve háar aukafjárveitingar þar er farið fram á, sem ekki eru minni en kr. 5382100,31, þá hefir aðalniðurstaða nefndarinnar orðið sú, að ekki væri ástæða til að gefa þeirri stjórn, er þá fór með fjármálin, sök á þessu, því að þessir tímar voru óvenjulegir.

Á þinginu 1919 var t. d. búist við, að alt verðlag mundi lækka að miklum mun, af því að stríðið var þá nýlega úti, og voru fjárlögin samin í því trausti. En það fór í öfuga átt, því að þá fór alt fyrir alvöru fyrst að hækka í verði, og má best sjá það á dýrtíðaruppbótinni, sem altaf fór stórhækkandi, þangað til í fyrra. Hlutu því öll gjöld að fara langt fram úr áætlun. Þetta er einungis sagt um heildina, en á ekki við um einstakar greiðslur. Um einstakar greiðslur má vitanlega deila, hvort meira hefði mátt halda í en gert hefir verið. Á það leggur nefndin í heild sinni engan dóm, og um það er erfitt að dæma svo löngu síðar. Að öðru leyti hafa og allir hv. þm. í raun og veru jafna aðstöðu til þess að vanda um slíkt.

Upphæðin í frv. er óneitanlega há. En nefndin hefir komist að þeirri niðurstöðu, að hún sje þar hærri en hún þurfti að vera í raun og veru; því að þar er leitað aukafjárveitinga fyrir upphæðum, er greiddar hafa verið í fullri heimild, svo sem fyrir lögákveðnum greiðslum, sem farið hafa fram úr áætlun. Er slíkt alveg óþarft.

Líka er leitað aukafjárveitinga á greiðslum, sem heimilaðar hafa verið árið áður; en það er ekki venja.

Jeg get nú búist við, að háttv. deildarmenn eigi erfitt með að átta sig á brtt. nefndarinnar. En óþarft er þó að eyða löngum tíma í að gera grein fyrir þeim, þar sem í raun og veru eingöngu er um formsatriði að ræða. Þar, sem upphæðir frv. eru lækkaðar eða feldar burt, er sú ástæða til, að nefndin hefir talið lagaheimild til frekari greiðslu en í frv. er gengið út frá. En þar sem við er bætt, hefir yfirskoðunarmönnum sjest yfir umframgreiðslu.

Ef hv. þdm. óska frekari upplýsinga um einstakar till. nefndarinnar, skal jeg að sjálfsögðu gera þá grein fyrir þeim, sem jeg kann best. En í sjálfu sjer mætti vitanlega alveg eins samþykkja frv. óbreytt, úr því að ekki kemur til mála að vefengja heimild stjórnarinnar til að inna greiðslurnar af hendi eða koma fram ábyrgð á hendur henni út af þeim.