25.04.1923
Neðri deild: 50. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1841 í B-deild Alþingistíðinda. (1704)

23. mál, fjáraukalög 1920 og 1921

Fjármálaráðherra (KIJ):

Jeg stend nú upp sem fjrh. Jeg skal byrja á því að taka undir með hv. frsm. (JakM), að það er mjög óheppilegt, að enginn endurskoðendanna skuli eiga sæti á Alþingi. Væntanlega verður það ekki oftar. Jeg skal taka fram, þó það sje hv. deildarmönnum kunnugt, að jeg hefi engan þátt átt í samning þessa fjáraukalagafrv., því að ef svo hefði verið, hefði það verið öðruvísi og svipað því; sem hv. frsm. benti á. Alla þá tíð, er jeg var landritari og bjó út fjáraukalagafrumvörpin, fylgdi jeg þeirri reglu að taka ekki neinar fjárupphæðir upp í þau, ef þær fóru ekki fram úr því, sem heimilað var fyrir bæði árin. Það kom iðulega fyrir, að meira fje var notað t. d. til vegagerða fyrra árið en það síðara, en jafnframt var þess gætt að fara ekki fram úr áætlun í heildinni. Stæði upphæðin alveg heima, kom mjer ekki til hugar að sækja um nýja fjárveitingu, þótt meira væri notað fyrra árið. Það var altaf töluverður reipdráttur milli endurskoðenda og stjórnarinnar. Endurskoðendur vildu leita aukafjárupphæðar til margs, sem var hrein áætlunarupphæð, eða enda lögboðin. Jeg get ekki neitað, að mig furðaði dálítið á, að þeirri reglu skuli vera fylgt í frv., að taka blint athugasemdir endurskoðara til greina.

Þegar jeg las yfir brtt. nefndarinnar og sá, hvaða liðir höfðu verið burt feldir, þá var jeg háttv. frsm. fyllilega samdóma um það, að óþarfi sje að leita sjerstakrar aukafjárveitingar, þegar um lögákveðin laun starfsmanna landsins er að ræða. Sjerstaklega á það við um brtt. 17, við 4. gr. 29. e, d og e, um bólusetningarkostnað, því að það eru fullkomlega lögboðin útgjöld, og það þarf ekki sjerstakt samþykki þingsins til umframgreiðslu í því skyni. Hins vegar er stjórnin skyldug að lögum að kosta til í þessum efnum, hvað sem það svo verður mikið. Jeg hefi tekið eftir því, að nefndin hefir felt burtu liði, þar sem farið er fram á aukafjárveitingu fyrir eldivið og ljós í skólum, t. d. 45. brtt., og tel jeg það rjettmætt.

Aftur á móti minnist jeg ekki, að hv. frsm. hafi minst á eina brtt., sem sje 56. brtt. Mjer er það ekki fyllilega ljóst, hvort sá liður ætti að falla. Svo hefi jeg ekki frekar að athuga við brtt. nefndarinnar, en vildi ráðleggja háttv. deild að samþykkja þær.