25.04.1923
Neðri deild: 50. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1842 í B-deild Alþingistíðinda. (1705)

23. mál, fjáraukalög 1920 og 1921

Magnús Guðmundsson:

Jeg stend ekki upp til þess að ræða um brtt. þær, sem hjer liggja fyrir. Það hefir háttv. frsm. (JakM) gert.

Ástæðan til þess, að jeg hefi kvatt mjer hljóðs, eru árásir þær, sem blaðið „Tíminn“ hefir hafið gegn mjer og fjármálastjórn minni. Vona jeg, að enginn háttv. deildarmaður lái mjer, þótt jeg vilji bera hjer hönd fyrir höfuð mjer, því hjer er hið rjetta varnarþing slíkra mála, ekki síst þar sem ritstjóri þessa blaðs hefir reynst svo göfuglyndur að neita mjer um rúm í blaðinu fyrir svar við þessum árásum. Mun slíkt einsdæmi. Hvort þessi drenglyndi ritstjóri hefir álitið, að svarið mundi eyða árásunum og hann hafi viljað búa einn að blekkingunum, veit jeg ekki, en vera má, að jeg geti komið vörn minni til almennings, þótt lokuð sje þessi leið.

Blaðið heldur því fram, að jeg hafi gefið þinginu villandi skýrslur um útgjöld ríkissjóðs 1920 og 1921, og þegar jeg rak þetta ofan í blaðið og sýndi með tölum, hversu fjarri öllum sanni þessi ásökun var, bætir það aðeins við nýjum blekkingum og telur sig hafa sannað mál sitt með því, að tölur þær, sem jeg gaf upp í skýrslum mínum um útgjöldin, komi ekki heim við tölur þær, sem landsreikningarnir sýna. Þetta kemur mjer síst á óvart, því að jeg tók það fram í skýrslum mínum til þingsins 1921 og 1922, að svo myndi fara, enda ættu allir að geta sjeð, að það er ómögulegt fyrir hvaða ráðherra sem er að segja í miðjum febrúar, en þá gaf jeg skýrslurnar, hver útgjöld verða árið næsta á undan með fullri vissu, þar sem sú ófrávíkjanlega regla gildir, að halda áfram útborgunum úr ríkissjóðnum tilheyrandi síðastliðnu ári til aprílloka næsta ár á eftir. Allir sjá því, að það er gersamlega ómögulegt að segja í miðjum febrúar upp á eyri, hver útgjöld koma á næstu 21/2 mánuði.

Mjer kemur ekki til hugar, að ritstjórinn hafi ekki vitað þetta, og er því í engum efa um, að hjer er um vísvitandi blekkingu að ræða, sem er útreiknuð eftir þeirri Jesúítasiðfræði, að tilgangurinn helgimeðalið og altaf verði einhverjir til að trúa ósannindunum, þótt vísvitandi sjeu þau fram borin.

Um hluta ríkissjóðs af enska láninu er þess að geta, að jeg ætlaðist ekki til, að ríkissjóður tæki af því nema 1% miljón kr., og nægði það til þess, að tekjur og gjöld samkvæmt landsreikningunum 1920–’21 stæðust á. En fyrv. fjrh. (MagnJ) hefir talið rjett að taka 1 milj. kr. í viðbót, sem hann hafði vitanlega heimild til. Sýnir það væntanlega, að hann hefir talið þetta hentugra ríkissjóði. Jeg er ekki enn þá sannfærður um, að þetta hafi verið rjett, en af því að mjer er sagt, að fyrv. fjrh. (MagnJ) hafi verið fjármálaaðstoðarmaður „Tímans“ og gefið honum þær leiðbeiningar, sem hann gat, um árásir á mig sem fyrirrennara sinn, vil jeg benda á þetta og eins hitt, að óvandari verður eftirleikurinn. Úr því að hann og blað þetta hafa talið rjett að ráðast þannig á mig, án þess að gefa mjer tækifæri til svara á sama vettvangi, þá hefi jeg heimild til að greiða í sömu mynt. Og lofa skal jeg fyrv. fjrh. (MagnJ) því, að verði jeg ofanjarðar næsta ár, hvort sem jeg verð þingmaður eða ekki, þá skal jeg bera saman tölur þær, sem hann gaf þinginu nú í þingbyrjun og hinar, sem koma til að standa í landsreikningnum fyrir árið 1922. Jeg veit fyrirfram, að þær koma ekki heim. Tölurnar í landsreikningnum hljóta að verða hærri, og er þá fyrv. fjármálaráðherra (MagnJ) kominn í sama gapastokkinn, sem hann og blaðið hans ætluðu að setja mig í.

Blaðið segir, að jeg hafi ekki þorað að láta þingið vita um hið raunverulega fjárhagsástand ríkisins og að jeg hafi falið það fyrir því í fyrra, og þess vegna ekki lagt fyrir það fjáraukalagafrv. fyrir árið 1922. Þetta hefir verið símað út um alt land og tölublaðinu, sem hafði þennan prestslega sannleika ritstjórans að geyma, hefir verið stráð út yfir landið. En allir háttv. þingdeildarmenn vita vel, að þetta er uppspuni frá rótum, enda hefi jeg sannfrjett, að á flokksfundi í Framsóknarflokknum hafi því verið hreyft, að árásir þessar væru rangar og myndu spilla fyrir flokknum, ef hið sanna kæmi í ljós. Í raun og veru þarf jeg ekki aðra vörn en þessa, að samflokksmenn blaðsins löðrunga það og afneita því. En benda vil jeg þó á það, að það hljóta að vera vísvitandi ósannindi, er blaðið segir, að jeg hafi viljað blekkja þingið, þar sem vitanlegt er: að landsreikningurinn fyrir árið 1920 lá fyrir þinginu í fyrra, að jeg gaf samskonar skýrslu fyrir 1921 og nú í þingbyrjun var gefin fyrir árið 1922, og að fjáraukalög fyrir árið 1922 eru alt annað en fjáraukalög fyrir árin 1920 og 1921, og get jeg ekki talið það annað en vísvitandi blekkingu, að blanda þessu saman, enda vita flestir, að það er ómögulegt í miðjum febrúar 1922 að leggja fyrir þingið fjáraukalög um greiðslur tilheyrandi árinu 1921, þar sem greiðslur þessa síðastnefnda árs standa yfir til aprílloka 1922.

„Tíminn“ segir sjálfur, að dómur hans um fjármálastjórnina 1920–’21 sje þungur, og það hefir hann líka ætlað að láta hann verða, en skyldi ritstjórinn hafa athugað það, að dómur hans mun enn þyngri, er hann stendur frammi fyrir alþjóð manna, sannur að sök fyrir að fara með vísvitandi ósannindi og blekkingar, til þess að reyna að svívirða og ófrægja pólitískan andstæðing.

Jeg vík þá í fáum orðum að hinum einstöku liðum, sem blaðið hefir gert að umtalsefni. Er því meiri ástæða til þess fyrir mig, þar eð nefndin hafði ekki tíma til að athuga hvern einstakan lið, eins og hv. frsm. (JakM) tók fram, enda er það verk yfirskoðunarmanna, en ekki þingnefnda. Jeg verð að vera stuttorður um hvern lið, því þeir eru margir, og tek jeg þá í sömu röð og blaðið:

1. Blaðið spyr, með hvaða heimild risnufjeð hafi verið hækkað hjá forsætisráðherra. Því er fljótsvarað: Með heimild í lögum nr. 37, 28. nóv. 1919. Hefði ritstjórinn ekki átt að spyrja að þessu, þar sem „positivt“ lagaboð liggur fyrir, en spurningin sýnir einkar vel, hversu ritstjóranum er ant um að forðast blekkingar.

2. Umframgreiðslan til aðstoðar- og skrifstofukostnaðar stjórnarráðsins. Fjhn. leggur nú til, að liður þessi falli niður í frv. því, sem hjer um ræðir, og ætti því ekki að vera ástæða til að fjölyrða um það. Greiðslan stafar vitanlega af launalögunum, er bein afleiðing af dýrtíðaruppbótinni, og mun enginn álíta, að jeg nje aðrir, sem með ráðherraembætti fara, geti neitað að hlýða lögum landsins En fyrst ritstjórinn vill rifja upp hin gömlu skrif sín um fjármáladeildarstarfsmennina, væri ekki úr vegi, að jeg minti hann á, að stjórnin hans, sem nú situr að völdum, hefir ekki fækkað starfsmönnum í stjórnarráðinu, jafnvel þó skrifstofustjórinn í fjármálaráðuneytinu sje orðinn fullfrískur nú, en hann var veikur og alveg frá verki mest af árunum 1920 og 1921. Hann er mjög duglegur maður, og má því nærri geta, hvílíkur missir var að honum bæði þessi ár. Má í raun og veru segja, að fyrv. fjrh. (MagnJ) hafi haft einummanni fleira en jeg hafði.

3. Þá er stjórnarráðshúsið. Jeg viðurkenni, að viðgerðin á því varð dýr, en húsið er ákaflega gamalt og óhjákvæmilegt var að gera við það á þessum árum. „Kvisturinn frægi“, sem blaðið nefnir svo, er mjer óviðkomandi. Hann var settur árið 1917, þegar jeg var norður í Skagafirði, m. a. fyrir tilstilli þáverandi atvinnumálaráðherra Framsóknarflokksins, Sigurðar Jónssonar.

4. Það er rjett, að umframgreiðslur til hagstofunnar voru miklar. En hver getur láð það, þegar tillit er tekið til, hversu alt starf hefir þar aukist, m. a. vegna manntalsins 1920. Annars fer þar lang mest í pappír og prentun, og er öllum kunnugt, hversu alt slíkt margfaldaðist í verði.

5. Um hina erlendu sendimenn er það að segja, að þeir hafa allir verið sendir að tilhlutun þingsins, og þar hefir ekkert farið fram úr áætlun nema skrifstofukostnaðurinn í Kaupmannahöfn, og er það að vonum, þar sem vinnulaun og húsaleiga hækkuðu þar eins og hjer. — Hvað mundi hafa verið sagt, ef laun sendiherrans þar hefðu verið hækkuð um 12000 kr. á ári upp á væntanlega aukafjárveitingu, eins og núverandi stjórn hefir gert á síðastliðnu ári? En þetta nefnir blaðið ekki, og sýnir það sanngirni þess og hversu gjarnt því er að gera mönnum jafnhátt undir höfði. Jeg er ekki að álasa stjórninni fyrir þetta, en get þess til samanburðar.

6. Um ritgerðina um skrifstofukostnað lögreglustjórans og bæjarfógetans í Reykjavík er það fyrst að segja, að þingið 1919 ákvað, að allir starfsmenn þeirra skyldu hafa uppbót samkvæmt launalögunum, auk þess sem sjálf launin voru hækkuð, en við þetta jókst kostnaður við mannahald í þessum skrifstofum um meira en helming. Húsaleiga lögreglustjóra var ákveðin eftir dómkvaddra, óvilhallra manna mati, og var ekki völ á öðru húsnæði Ritstjórinn er svo vingjarnlegur að álíta, að tollvörðunum hjer í bænum hafi verið greiddar alt að 10000 kr. hverjum á ári, en gætir þess auðvitað ekki, að tollverðirnir eru 5, í stað þriggja, sem hann telur. Heimildin fyrir stofnun þessarar tollgæslu er í lögum nr. 26, 26. okt. 1917, en um þörfina vita allir, og síst mun ríkissjóður hafa tapað á þessum ráðstöfunum, heldur hefir hann haft drjúgar tekjur einmitt vegna hinnar auknu tollgæslu hjer í bænum.

7. Blaðið undrast mjög, hversu prentunarkostnaður Stjórnartíðindanna fari fram úr áætlun. Jeg minnist þess, að blað þetta hækkaði á sjer verðið um helming og gat þess um leið, að hækkun sú samsvaraði ekki nándarnærri þeirri hækkun, sem orðið hefði á öllum prentunarkostnaði. Þessu hefir blaðið nú gleymt og telur hækkunina á útgáfukostnaði Stjórnartíðindanna skriffinsku stjórnarinnar að kenna. Veit blaðið ekki, að það er lögskipað, bæði að gefa út Stjórnartíðindin og eins hvað þar á að birtast að mestu leyti?

8. Það er að vonum, að blaðið gleymir ekki umframgreiðslunni til Vífilsstaðahælisins. En hinu furðar mig á, að blaðið skuli ekki geta þess, að ca. 200000 kr. voru greiddar til Klepps umfram áætlun. Nú vita allir, að ráðsmaðurinn á Kleppi er einhver allra sparsamasti, hagsýnasti og hyggnasti ráðsmaður í þjónustu landsins, og þó gat hann ekki annað en notað ca. 200000 kr. umfram fjárveitingu fjárlaganna 1920–1921. Er þetta ágætt dæmi þess, hversu afarfjarri lagi allar áætlanir fjárlaganna fyrir þessi ár reyndust, og er því síst að undra, þótt fjáraukalögin sjeu há. Þegar fjárlögin fyrir þessi ár, 1920–'21, voru samin, var stríðinu lokið og bjuggust allir við verðlækkun. Voru því áætlanir miðaðar við næstu fjárlög á undan. En í stað lækkunar hækkaði alt svo gífurlega, sem raun varð á. Mega því allir sjá, að eigi var að undra, þótt áætlanir fjárlaganna reyndust fjarri sanni. Til samanburðar má geta þess, að í fjárlögunum fyrir árið 1922 var áætlað jafnmikið til spítala eins og gert hafði verið árið 1919 í fjárlögum beggja áranna 1920 –’21 til samans.

9. Þá eru laun aðalpóstmeistara. Það er rjett, að þau voru 13500 kr. hvort árið, og er ástæðan sú, að þessi embættismaður hafði samning frá byrjun sinnar embættistíðar, sem ákvað honum víst „promille“-gjald af póstávísunum, og varð þessum samningi vitanlega eigi riftað. Þess vegna samdi þáverandi atvrh., Pjetur sál. Jónsson, við aðalpóstmeistara um að fast ákveða gjald þetta 4000 kr. árlega, og var það minna en tekjur hans af þessu gjaldi voru áður.

Þá telur blaðið laun póstmeistarans á Akureyri yfir 11600 kr. árið 1921. Ástæðan er sú, að aðstoðarkostnaður hans er talinn með, og til þess að vera ekki ósanngjarn í garð ritstjórans, gat hann haft hjer afsökun vegna orðalags landsreikningsins fyrir árið 1921, en ekki er hægt að saka mig um það, því það er eftirmaður minn, fyrv. fjrh. (MagnJ), sem hefir gert þann reikning. Ef hjer er eitthvað aðfinsluvert, þá er best fyrir blaðið að beina broddunum að sinni eigin stjórn.

10. Þá er löng romsa um vegamál, og telur ritstjórinn óforsvaranlegt að láta þau fara fram úr áætlun. Annars er sá ljóður á ráði hans þar, að hann tekur ekkert tillit til, þótt fjárveitingar sjeu færðar milli ára, eins og altaf hefir verið talið heimilt. Og fyrir þessa sök telur hann meiri umframgreiðslur en hafa verið í raun og veru.

T. d. telur hann 30–40 þús. kr. umframgreiðslu til Norðurárdalsvegarins. Þar athugar hann ekki, að fjárveiting beggja áranna er notuð fyrra árið. Var það gert til þess að fá veginn áfram upp úr hrauninu, enda hefði hann annars verið ónothæfur með öllu. Annars er enginn leikur að láta fje til vegagerða og viðhalds vega standast áætlun, þegar t. d. vinnulaun þre- og fjórfaldast, því eigi mun það hafa verið tilætlunin, að láta vegamálin dragnast upp. Þykist jeg þess viss, að ekki hefði það þótt betri búhnykkur. En annars má benda á það, að til viðhalds vega má alls ekki klípa svo fje við neglur sjer, að vegirnir fái ekki sæmilegt viðhald, því að þá verður viðgerðin síðar miklu dýrari. Vinnulaun hækkuðu stórkostlega á þessum árum og alt, er til vegalagninga þurfti. Áhaldaliðurinn hefir farið mjög mikið fram úr áætlun, vegna kaupa á vjelavögnum til þess að flytja ofaníburð í vegi, og hefir það áreiðanlega borgað sig vel, því að hestaleiga var afskaplega há. Til að sýna rangsleitnina í þessum skrifum, vil jeg benda á, að 4921 var felt niður að gera þessa vegi, sem fjárveiting var þó fyrir: Hróarstunguveg, Vallaveg, Krossárdalsveg, Öxnadalsveg og Kjalarnesveg. Um Norðurárdalsveginn er fyrst og fremst skýrt rangt frá um umframgreiðslumar á fjárhagstímabilinu, og í öðru lagi mátti til að koma veginum upp úr hrauninu, og við það var fjárveitingin miðuð í byrjun, því að ella var hinn nýi vegur að engum notum. Og hver, sem þann veg fer, sjer, að hann er ekki fullgerður, og það var eingöngu gert af sparnaðarástæðum. Hefði vegurinn endað í miðju hrauninu, var hann ónýtur fyrir ferðamenn.

Annars segir blaðið, að gætt sje sparsemi að því er snertir 13. gr. fjárlaganna, og á það víst að vera plástur, til þess að draga úr árásum þessa sprengvirðulega blaðs á Pjetur sál. Jónsson, en heilindin í þessu sjást best, þegar það er athugað, að umframgreiðslurnar í þessari grein einni nema, samkvæmt frv. stjórnarinnar, hjer um bil jafnmiklu og í öllum hinum greinum fjárlaganna til samans, enda ekkert undarlegt við það, þar sem þar sem talin gjöld öll til póstmála, vega, strandferða, síma og vita.

Kvennaskólinn í Reykjavík gat ekki starfað nema að fá aukna fjárveitingu, en ófært þótti að leggja hann niður.

Styrkurinn til Jóh. L. L. Jóhannssonar var hækkaður eftir ákvörðun þingsins, vegna þess, að styrkurinn til Jakobs Smára, sonar hans, til að vinna að hinni íslensku orðabók, fjell niður.

Þá fjargviðraðist blaðið yfir hinum óvissu útgjöldum, og telur undarlegt, að þau fara mjög fram úr áætlun. Til þessa var áætlað 20 þús. kr. á ári, árin 1920 og 1921, en til þess að sýna, að umframgreiðsla á þessum liðum er óhjákvæmileg, nefni jeg nokkra liði, sem telja má lögákveðna, eða sama sem, og er það alt tekið eftir landsreikningnum:

1. Fjárkláðakostnaður kr. 21180,41

2. Eyðublöð, bókband o. fl. — 25772,49

3. Fyrir eignarnám (þessi

upphæð er endurgreidd) .. — 15000,00

4. Vextir og afborgun

af Landsbankahúsinu ... — 7187,37

5. Vextir af lánum hjá út-

flutningsnefnd — 31200,00

6. Stimpilgjald á ríkissjóðs-

láni 1919 — 45000,00

7. Greiðslur samkv. reikn-

ingsúrskurðum .................... — 4093,85

8. Endurgreiddur tollur sam-

kvæmt tolllögum — 16841,98

9. Kaup á síld handa bændum

til fóðurbætis — 95261,00

Samtals kr. 261537,10

Þetta er alt á árinu 1920, og ætti hver maður að sjá, að ekki er gott að láta 20 þús. krónur nægja til þessara greiðslna allra. Svipað er að segja um árið 1921.

Tíðrætt er blaðinu um „legátana“, sem það kallar, en allir hafa þeir verið sendir eftir ráðstöfun þingsins, svo jeg get ekki orðið um slíkt sakaður. Meinilla er blaðskæklinum við, að íslenski fáninn skuli vera dreginn við hún á bústöðum sendimanna þeirra, sem fara með umboð okkar erlendis. Jeg sleppi því alveg að fást um, að ritstjórinn vill ekki láta fóðra stjórnarráðshesta, og við reiðtýgi og klifsöðla má stjórnin alls ekki láta gera (!!).

Vísvitandi ósannindi fer blaðið með, er það segir, að fálkaorðan hafi verið stofnsett ofan í vilja Alþingis. Í fyrra var blaðið altaf að klifa á krossum þessum, en síðan þess stjórn settist á laggirnar hefir það ekki nefnt þá, þó krossum hafi rignt eins og skæðadrífu. Er það skiljanlegt, að blessuðum ritstjóranum komi það betur að þegja um þetta nú sem múlbundinn rakki, því að tengdafaðir hans, hæstv. atvrh. (KIJ), mun nú vera mestur krossberi þessa lands. (Atvrh. KIJ: Ekki satt). Hver þá? (Atvrh. KIJ: Fyrverandi forsætisráðherra (JM)). Hæstv. atvrh. (KLJ) verður þó áreiðanlega næstur. (Atvrh. KlJ: Já, það vona jeg).

Aðdróttun blaðsins um byssukaup út af rússneska drengs málinu tel jeg naumast svaraverða, því að flestir munu vita, að ríkissjóður keypti enga byssu. Að öðru leyti tel jeg ekki ástæðu til að fara út í það mál, nema sjerstakt tilefni sje gefið til þess, en þá skal ekki standa á mjer um svör. Að blaðið níðir mig og meðstjórnendur mína út af því máli, kemur mjer vitanlega ekki á óvart, en vart mun núverandi stjórn fá betri dóm hjá almenningi fyrir það mál en hin fyrverandi.

Tollaendurgreiðslan, sem blaðið gerir að umtalsefni, hefir farið fram samkvæmt skýlausum fyrirmælum tolllaga og vörutollslaga. Skilagreinir fyrir þessu hafa yfirskoðunarmenn landsreikninganna haft með höndum og ekkert fundið að athuga.

Blaðið lætur það líta svo út, að mörg hundruð0000 þúsund króna tekjuhalli hafi orðið af símanum hjer í Reykjavík, en þetta er annaðhvort blekking eða vanþekking, því að allár tekjur af síma þessum eru taldar tekjumegin, eins og af öðrum símum, en kostnaðurinn gjaldamegin. Það er þessi einkennilega Laufásrjettsýni, sem þykir það sanngjarnt, að líta aðeins á aðra hliðina.

Lengra en þetta er blaðið ekki komið enn í athugunum sínum, en von mun á framhaldi, og skal jeg þá við tækifæri taka það til bænar. En út af tveimur fyrirspurnum, sem blaðið hefir beint til mín, skal jeg taka það fram, að jeg hefi ekki fundið ástæðu til að svara þeim í blaðinu, fyrst ritstjórinn neitar mjer um rúm þar til andsvara, en hjer get jeg tekið það fram, að tekjuskattsmál það, er hann spyr um, var á sínum tíma borið undir fjárveitinganefnd þessarar háttv. deildar, og samþykti hún allar mínar gerðir í því, og er því best fyrir ritstjórann að spyrja sína eigin stjórn, hvað málinu líði. Hann segir reyndar, að málið muni aldrei hafa verið borið undir þingið, en þetta er hans venjulega meðferð á sannleikanum. Hitt atriðið, sem hann spyr um, er um það, hvers vegna jeg hafi tekið að mjer að verja ýmsa menn hjer í tekjuskattsmálum, og telur það óhæfilegt af mjer, sem höfundi tekjuskattslaganna. En þessu get jeg mjög vel svarað, og svarið er á þá leið, að einmitt vegna þess, að jeg er höfundur tekjuskattslaganna, er mjer ant um, að þeim sje rjett beitt, en svo var ekki í sumum atriðum, og snerta þau fyrverandi fjármálaráðherra dálítið óþægilega, því að hann hefir orðið þessa valdandi með drætti sínum á útgáfu tilsk. 1. apríl í fyrra, og með þessu hefir hann bakað ríkissjóðnum tap, sem enn er ósjeð, hversu mikið verður.

Meira held jeg, að jeg þurfi ekki að taka fram að sinni út af ummælum oftnefndrar patentblekkingarverksmiðju hæstv. stjórnar.

Jeg vil þó aðeins bæta því við, til að sýna heilindi ritstjórans, að í fyrra, um það bil, sem stjórnarskiftin urðu, fjekk jeg boð frá ritstjóranum með þingmönnum, sem sitja hjer í þessum sal, að ef jeg vildi vera fjármálaráðherra áfram, skyldi „Tíminn“ styðja mig eindregið, en þegar jeg kærði mig ekki um að hafa það starf lengur á hendi, sneri hann strax við blaðinu og hefir altaf síðan haft mig milli tannanna. Þessi aðferð minnir á það, sem sagt er um einstaka menn — en þeir eru sjálfsagt örfáir, — er biðja sjer kvenna og fá hryggbrot, en gera síðan alt til að níða þessa konu, er þeir vildu fá; en þá sjaldan þetta kemur fyrir, er það talinn sjerstakur ódrengskapur.

Það hefir komið í minn hlut að standa fyrir fjármálum þessa lands þau árin, sem erfiðust hafa verið um langa hríð. Ef jeg hefi gert það illa, sem jeg ekki skal um dæma, er það næsta undarlegt, að harðsnúnasti andstæðingurinn vildi hafa mig áfram í þeirri stöðu, og jeg fæ ekki betur sjeð en að með þessu hafi þessi andstæðingur minn viðurkent, að undangengnar árásir hans allar sjeu að alls engu hafandi — vægast talað út í bláinn og gerðar af hvötum, sem auðsæjar eru, en jeg hirði ekki að nefna.