28.04.1923
Neðri deild: 52. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1863 í B-deild Alþingistíðinda. (1728)

25. mál, landsreikningar 1920 og 1921

Frsm. (Magnús Guðmundsson):

Eins og nál. ber með sjer, leggur nefndin til, að frv. verði samþykt óbreytt. Það er aðeins viðvíkjandi tveim atriðum, sem hún kemur með tillögur, og er það samkvæmt athugasemdum yfirskoðunarmanna landsreikninganna.

Fyrst leggur nefndin til, að stjórninni sje falið að rannsaka, hvort Íslandsbanki hafi greitt það, sem honum bar að greiða í ríkissjóð árið 1921, og ef hún kemst að þeirri niðurstöðu, að það hafi ekki verið gert, þá innheimti hún hið vangoldna. Að öðru leyti tekur nefndin enga frekari afstöðu til þessa atriðis.

Þá eru enn fremur tekjueftirstöðvar hjá ýmsum gjaldheimtumönnum ríkisins, og munu sumar þeirra vera orðnar nokkuð gamlar. Vill nefndin einnig fela stjórninni að innheimta þessar eftirstöðvar sem allra fyrst, ef þær eru eigi þegar greiddar, sem jeg býst þó við, að vera muni að mestu leyti.

Þær tölur, sem þessi landsreikningur sýnir, eru mjög háar, og hefi jeg áður rætt það mál hjer í öðru sambandi. Hefir mikið verið um það rætt og ritað, hve mjög gjöldin fóru fram úr áætlun. Skal jeg ekki fara mikið inn á það mál nú, aðeins drepa á helstu atriði.

Tekju- og gjaldahlið hefir hjer um bil þrefaldast frá því, sem ráð var gert fyrir í fjárlögunum. Er þetta nokkurn veginn í samræmi við það, hvað dýrtíðin óx á þessum árum frá því 1919, er fjárlögin voru samþykt, til ársloka 1921. En jeg geri ráð fyrir, að háttv. þdm. hafi rekið sig á það, að greitt hefir verið þessi ár um 61/2 miljón króna samkvæmt lögum, er áætlun var ekki gerð fyrir í fjárlögunum. Get jeg þessa af því, að í nál. fjhn. hefir það áður af misgáningi verið talið 5 milj. Enn fremur má nefna það, að í fjárlögunum var ekki áætlað neitt fyrir þeirri hækkun útgjalda, sem leiddi af launalögunum 1919, en sú hækkun nam um 3 milj. króna á árunum 1920 og 1921. Þá eru greiðslur af lánum ríkissjóðs, sem hækka útgjaldaliðinn gífurlega. Eru þær á 7. miljón króna, en í fjárlögunum er gert ráð fyrir rúmlega 2 miljónum til þeirra gjalda. Kemur því þarna 4 miljón króna hækkun, sem ekki er gert ráð fyrir, enda eru þessar 4 milj. afborganir á skuldum.

Á fjárhagstímabilinu hafa verið tekin tvö lán, annað innlent, en hitt hluti af enska láninu. Nema þau til samans um 5700000 kr. En þess ber að gæta, að í lok fjárhagstímabilsins eru eftir af þessum lánum 1200000 krónur, svo að ekki hefir eyðst af þeim nema 4500000 krónur. Þegar svo þess er gætt, að af skuldum ríkissjóðs voru afborgaðar 4 miljónir, eins og jeg hefi áður tekið fram, þá kemur í ljós, að skuldir ríkissjóðs hafa ekki aukist nema um sem næst 1/2 miljón króna á fjárhagstímabilinu.

Því hefir verið haldið fram af einu blaði hjer, að skuldir landsins hafi aukist um 6 miljónir króna á þessum árum. Veit jeg ekki, hvort jeg tók rjett eftir því, að fyrv. fjrh. (MagnJ) hjeldi þessu sama fram hjer í þinginu, en hafi svo verið, þá skýtur mjög skökku við, samanborið við það, sem jeg hefi nú skýrt hjer frá og tilfært rjett eftir landsreikningnum, sem ekki verður móti mælt.

Þá get jeg enn tilfært það, að af fje því, sem landsverslunin greiddi inn í ríkissjóð á árunum 1920 og 1921, kom til eyðslu 11/2 miljón. Þegar við það er bætt þessari þá miljón, sem jeg hefi áður nefnt, þá sjest, að á landsbúskapnum hafa árin 1920 og 1921 tapast sem næst 2 miljónir, eða um 1 milj. hvort árið. Svarar það á ári til rúmlega 10 kr. á hvern mann í landinu, eða um 50–60 kr. á hverja fjölskyldu. Ætla jeg, að margir einstaklingar og fjölskyldur hefðu talið sig sleppa vel þessi ár, hefðu skuldir þeirra ekki aukist meira, eða eignir þeirra ekki gengið meira saman.

Þá hefir því einnig oft verið haldið fram, að innanríkislánið 1920 hafi alt verið uppeytt í árslok 1921. Til þess að sýna fram á, að þetta er ekki rjett, nægir að benda á landsreikninginn sjálfan, þar sem stendur, að eftir sjeu í árslok 1921 1200000 krónur. En þó má geta þess, að af innanríkisláninu var varið á árunum 1920 og 1921 um 1360000 krónum til ýmsra verklegra framkvæmda, svo sem brúagerða, símalagninga og húsabygginga. Var því um 400000 krónum af því varið á annan hátt en ráð var gert fyrir, þegar lánið var tekið.