03.04.1923
Efri deild: 30. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1875 í B-deild Alþingistíðinda. (1769)

9. mál, vatnalög

Atvinnumálaráðherra (KIJ):

Jeg finn ástæðu til að þakka háttv. allshn. fyrir meðferð þessa máls. Eins og öllum háttv. þm. er kunnugt, hefir mál þetta legið fyrir Nd. á 4 síðustu þingum án þess hún leiddi það til lykta, og á síðasta þingi kom ekki einu sinni fram nál. Þessi nefnd hefir hins vegar lagt mikið verk í að athuga frv., samið ítarlegt nál. og komið fram með margar brtt. Jeg lít svo á, að þetta sje mjög svo þýðingarmikið mál og það sje sómi þingins að koma því nú frá sjer. Og þó að mönnum hafi ef til vill skotist yfir eitthvað og ósamræmi geti átt sjer stað í svo stórum lagabálki, þá ber ekki svo mjög að líta á það nú. Reynslan mun leiða í ljós gallana, og er þá hægt að bæta úr. Þetta mál hefir fengið góðan undirbúning, og það eru öll líkindi til þess, að það geti komist hjeðan úr deildinni í þessari viku, og þá er nægur tími fyrir háttv. Nd. að afgreiða það á þessu þingi, ef hún á annað borð vill sinna því.

Eftir þessar almennu athugasemdir skal jeg leyfa mjer að fara nokkrum orðum um brtt. nefndarinnar. Breytingar hennar eru, eins og háttv. frsm. (GGuðf) tók fram, ekki efnisbreytingar, heldur orðabreytingar og skýringar, og flestar til bóta. Jeg gerði ekki margar brtt. við frv., en mjer þykir leitt, að nefndin hefir ekki að öllu leyti getað tekið þær til greina. Það er þýðingarlaust að fara að rekja allar brtt.; háttv. frsm. gerði það ekki, og jeg mun ekki heldur gera það, en víkja að nokkrum. 1. brtt. nefndarinnar álít jeg til verulegra bóta, um það að tiltaka ákveðið tímatakmark til að vinna verkið. Við 5. brtt. kemur orðalagið eitthvað undarlega fyrir, ef a-liðurinn verður samþyktur. Þar er lagt til, að orðin „eftir fyrirmælum 22. gr.“ falli burtu. En þá hljóðar greinin svo: „Rjett er eiganda eða notanda þeirrar landareignar, sem vatn er tekið úr samkvæmt 1. lið, að leggja til sín og á sinn kostnað vatnsæðar úr vatnsveitu kaupstaðarins, enda greiði hann kaupstaðnum aukakostnað af því, nema öðruvísi semji.“ Þetta kemur ekki vel fyrir. Jeg held, að eitthvað hafi fallið úr, og væntanlega lagfærir nefndin þetta til 3. umr. Þá er 6. brtt. nefndarinnar Það er sama og 2. brtt. stjórnarinnar, og þarf jeg ekki að tala um hana. Þá er 8. brtt. við 49. gr. Þar vil jeg gera sömu aths. og háttv. frsm. Það þarf að setja 500 eðlishestöfl í stað 200 í 65. gr. líka, og væntanlega lagar nefndin það til 3. umr. Þá er 13. brtt., við 67. gr. Nefndin vill bæta þessu aftan við greinina: „og sje kostnaður við heimtaugar ekki meiri en yfirleitt fyrir aðra notendur orku frá því veri.“ Stjórnin hafði í 5. brtt. sinni lagt það til, að 67. gr. fjelli burt. Jeg held því fram, að það hefði verið heppilegast, en ef háttv. deild getur ekki fallist á það, þá álít jeg, að viðbót nefndarinnar sje til stórra bóta. En mig minnir, að það sje ákveðið einhversstaðar annarsstaðar í frv.; jeg var að leita að því, en fann ekki, en það mun þó vera þar. Sama er að segja um brtt. við 101. gr. Ef háttv. deild getur ekki fallist á brtt. stjórnarinnar, að 4. liður falli burt, þá er það til bóta að ákveða, að landsdrottni sje því aðeins skylt að kaupa mannvirkin, að þau sjeu metin jörðinni til varanlegra bóta. Þá er 20. brtt., við 126. gr. Þar gat háttv. frsm. (GGuðf) um, að vantaði skilgreining á hugtakinu „almenningur“. Það er rjett; það er gengið út frá, að það sje áður nefnt í frv., en í 4. gr. frv. er talað um netlög. Því er rjettast að láta þennar lið halda sjer eins og hann er, nema gerð sje breyting á 4. gr. Minni hlutinn hefir gert það; hjá honum er talað um almenning. En nú er ekki getið um almenning í frv., og því er annaðhvort að halda þessu óbreyttu eða taka upp skilgreining minni hlutans.

Viðvíkjandi brtt. stjórnarinnar, þá furðar mig á því, að nefndin skuli ekki hafa getað aðhylst 1. brtt. Það er engin efnisbreyting, en bara til skýringar. Sama er að segja um 3. brtt. Jeg get ekki skilið, hvers vegna nefndin hefir ekki treyst sjer til að vera með þeim, og vil biðja hana að athuga það nánar til 3. umr.

Þá er ein breyting, sem gera mætti, en hvorki stjórnin eða nefndin hafa lagt til, sú að fella burt 84. gr. Hún er gersamlega óþörf; í henni er ekkert, sem ekki er tekið fram í 83. gr.

Jeg sje svo ekki ástæðu til að fara frekar út í þetta mál. Það er nú komið á betri rekspöl en nokkurntíma áður, og jeg vænti þess fastlega, að þetta þing komi því frá sjer.