03.04.1923
Efri deild: 30. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1880 í B-deild Alþingistíðinda. (1773)

9. mál, vatnalög

Jón Magnússon:

Jeg vil leggja áherslu á það, sem háttv. frsm. (GGuðf) sagði, að nefndin mun athuga þær athugasemdir, sem fram hafa komið, til 3. umr. Jeg held, að það þurfi ekki að skýra, hvað almenningur í vatni sje. Það er ákveðið hugtak, sein ekki mun valda misskilningi. Hvað veiði í almenningum snertir, þá býst jeg ekki við, að útlendingum, sem eru á ferðalagi á fjöllum, verði meinað að veiða silung þar sjer til matar. En annars þarf ekki að taka það fram, að þegar talað er um rjettindi í lögum, þá eru þau fyrir landsbúa. Þá skal jeg taka það fram, að þó svo sýnist, að einhverju sje ofaukið, þá er ekki víst, að bót sje að fella það í burtu. 84. gr. kemur t. d. eðlilega fyrir í 9. kafla, þar sem talað er um óhreinkun vatna. Þess vegna vil jeg vara háttv. þingdeildarmenn við að fella mikið í burtu; það leiðir af heildarlöggjöfinni, að stundum er það tekið upp, sem nóg væri að vísa til í öðrum kafla. Jeg ætla ekki að fara neitt út í eignarþrætuna nú; það má vera, að jeg geri það við 3. umr.