05.04.1923
Efri deild: 32. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1903 í B-deild Alþingistíðinda. (1784)

9. mál, vatnalög

Jónas Jónsson:

Háttv. 4. landsk. þm. (JM) taldi það árás á lögfræðingana, að efast um það, að þeir gætu bygt frv. á annari skoðun en sinni eigin.

Það má vera, að jeg skilji þetta ekki, að þeir geti gert þetta, af því jeg er ekki lögfræðingur. En jeg vildi ekki gefa mig til þess að semja frv. fyrir fje. frv., sem jeg yrði að gera gagnstætt sannfæringu minni. Jeg efast líka um, að margir lögfræðingar vildu gera það, og verður þú spurning, hvort jeg hefi óvirt lögfræðingana með þessari skoðun minni. Heldur tel jeg þá menn óvirða stjettina, sem telja slíka vinnu sæmilega.

Viðvíkjandi því, sem háttv. 4. landsk. þm. (JM) sagði um það, að ræna mætti á fleiri hátt en einn eignum manna þá má geta þess, að í Englandi hefir verið eitt sinn lagður svo þungur skattur á, að hann nam 80% af tekjum manna. Þessi skattur var ekki kallaður rán, enda þótt menn væru óánægðir með hann. En það er andlega sjeð rangt og vitlaust að ætla sjer að láta landið eignast fallvötnin með aðferð meiri hlutans. Um þetta býst jeg við, að allir sjeu sammála, að ef landið til dæmis tæki Gullfoss á þennan hátt, þá myndi það tapa málinu, sem af því risi.

Þeir, sem ekki eru lögfróðir, líta svo á, að framkvæmd á kenningu meiri hlutans sje fjarstæða og óframkvæmanleg, en viðurkenna aftur, að ríkinu sje rjett að taka skatta. Og það er ekki rangt, þó fossar, sem ganga kaupum og sölum fyrir hundruð þúsunda króna, sjeu skattlagðir, og það jafnvel svo hátt, að eigendurnir verði fegnir að losa sig við þá. Í þessu efni er sjálfsagt fyrir okkur að fylgja þeim rjettargrundvelli, sem alviðurkendur er.