03.05.1923
Neðri deild: 56. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1925 í B-deild Alþingistíðinda. (1809)

9. mál, vatnalög

Frsm. minni hl. (Jón Þorláksson):

Jeg ætla að hafa þann formála, að enda þótt þetta frv. hafi legið fyrir Alþingi síðan jeg fjekk þar sæti, þá hafa ýms atvik valdið því, að málið hefir aldrei verið rætt í Nd. Því það geta ekki umræður talist, þó byrjað væri á einni framsöguræðu um málið á þinginu 1921, en þeirri ræðu varð aldrei lokið. Nú kemur mál þetta þann veg fyrir deildina, að meiri hl. nefndarinnar vill varna því, að deildin taki það til efnismeðferðar. Frsm. meiri hl. (SvÓ) lýsir því yfir, að hann vilji ekki greiða atkvæði með þeim af framkomnum breytingartillögum, sem hann þó er samþykkur, heldur vill hann, að frv. sje keyrt fram óbreytt, eins og það kemur til deildarinnar, og er slíkt engin efnismeðferð á slíkum lagabálki.

Jeg verð að álíta þessa aðferð alveg óverjandi og alósæmandi, að deildarmenn hugsi til að afgreiða slík lög sem þessi án þess að taka frv. í heild til gagngerðrar efnismeðferðar. Það hefir nú atvikast þannig, að mál þetta kom seint fram, og nú er unnið á þinginu, jafnt daga sem nætur við deildarfundi og nefndarstörf, og verð jeg því að játa að jeg hefi ekki haft tíma til að búa mig svo vel undir framsögu mína, sem málið sjálft og minn góði málstaður verðskuldar.

Við háttv. þm. Dala. (BJ) erum nú í minni hl. í nefndinni og berum fram nokkrar breytingartill. á þskj. 487. Eins og menn muna, bárum við tveir, ásamt Guðm. Björnssyni landlækni, fram sem eiginlegar tillögur í milliþinganefndinni í vatnamálum, og miða brtt. okkar nú að því að færa frv. nokkru nær þeim tillögum. En þótt við háttv. þm. Dala (BJ) þannig höfum fylgst að um tillögur, bæði nú og þá, má vera, að við lítum á þetta mál frá nokkuð mismunandi sjónarmiði; þótt við sjeum ásáttir um efni og orðun lagagreinanna, er ekki víst, að hið sama vaki fyrir okkur um framkvæmdir í þessum málum. En þar veit jeg mig vera í algerðu samræmi við fyrv. formann okkar í milliþinganefndinni, Guðm. Björnsson, og af því að þetta verður máske fyrsta og síðasta tækifærið til að gera grein fyrir sameiginlegri afstöðu okkar tveggja, þá ætla jeg nú að tala fyrir okkar hönd, en háttv. þm. Dala. getur gert grein fyrir sinni skoðun, ef hún er eitthvað frábrugðin því, sem jeg nú flyt, og hygg jeg, að svo muni ekki vera nema að mjög litlu leyti.

Eftir þennan formála vil jeg þá fyrst gera grein fyrir því, hvað við eigum við, þegar við tölum um fossabraskara og fossaprang.

Það má líta á fallvötn vor sem ónotuð landgæði, sem geti orðið að gagni síðar meir, til að auka lífsþægindi landsmanna. Fossabrask köllum við það, þegar reynt er að ná með kaupsamningum valdi yfir fallvötnum. Í því skyni að selja þau aftur fyrir hækkað verð, án þess að nokkur viðleitni fylgi með eða vilji til að leggja á sig útgjöld eða vinnu til virkjunar þeirra. Þeir, sem kaupa eða leigja fallvötn til virkjunar og sýna fullan vilja og viðleitni á að framkvæma hana, eiga ekkert skylt við braskarana.

Það má líkja þessari ónotuðu orku vatnsfallanna hjer á landi við heimasætu í föðurgarði. Þeir, sem falast eftir orkunni til virkjunar, koma fram sem heiðarlegir biðlar heimasætunnar, og er sjálfsagt að taka þeim með fullri kurteisi og velvild, jafnvel þótt rjett þyki af einhverjum ástæðum að synja þeim ráðahagsins. En braskararnir vilja það eitt, að gerast friðlar þessarar heimasætu, hafa af henni stundarhagnað og skilja hana svo eftir spjallaða af verðhækkun, og þar með svifta því helsta yndi, sem hún hafði að bjóða heiðarlegum biðli.

Þá skal jeg reyna að gera í stuttu máli grein fyrir þeirri hugsjón, sem var leiðarstjama okkar Guðmundar landlæknis við frumvarpasmíðina í milliþinganefndinni. Hún var sú, að sníða löggjöfina þannig, að sem greiðast yrði að taka vatnsorkuna til notkunar í þarfir landsmanna sjálfra, til þess að veita hita og ljósi inn á sem flest heimili landsins. Nýjar uppgötvanir á þessu sviði höfðu rutt úr vegi öllum verklegum erfiðleikum. Orkan er nóg til í landinu; allir erfiðleikarnir á að koma þessu í framkvæmd voru nú eingöngu fjárhagslegs eðlis. Fyrst kostar mikið að virkja fallvötnin, og svo er veitukostnaðurinn út um strjálar bygðir ekki síður erfiður, ef orkan er unnin í stórum verum og veita þarf yfir víðlend svæði. Okkur varð fljótt ljóst, að til orkunýtingar fyrir sveitaheimili þessa lands er einungis um tvær leiðir að ræða. Önnur er sú, að byggja smástöðvar fyrir einstök heimili, sem sleppa þá að mestu við veitukostnaðinn. Hin er sú, að sameina heil hjeruð um eitt stórt orkuver, með mjög ódýrri orku; þá hlýtur að vísu að koma mikill veitukostnaður á hvert býli, en úr því farið er að veita orkunni langleiðis á annað borð, verður veitukostnaður á hvert býli ekki mjög mismunandi, hvort sem svæðið er haft mjög stórt eða nokkru minna. Þó hefir þetta hvorttveggja, orkukostnaður og veitukostnaður, hingað til valdið því, að engin þjóð hefir treyst sjer til að koma þessu í kring að nokkru ráði, og verður hjer að leita allra ráða til að hafa kostnaðinn sem minstan, ef nokkur von á að vera um framkvæmanleik. Nú er það svo um virkjunarkostnaðinn, að hann fer eftir því, hvað stór orkuverin eru. Hann verður því minni á hverja hestorku, sem verið er stærra. Til þess að gefa rjetta mynd af þessu, skal jeg minna á, að samkvæmt ítarlegri rannsókn á virkjunarkostnaði í Svíþjóð, var hlutfallið á milli stórra og smárra orkuvera þannig, að þegar hver hestorka kostar 680 kr. í 5000 hestafla veri, þá kostar hún einungis 205 kr. í 45000 hestafla veri. eða minna en þriðjung fyrra verðsins.

Í láglendishjeruðum þessa lands er nú alls ekki um það að ræða, að hvert heimili geti komið sjep upp orkuveri. Þau eiga ekki kost fallvatna til þess. Og það segir sig sjálft, að ef nokkur von á að vera um raforkuveitur fyrir þessi hjeruð, þá verður að byggja svo stóra stöð, t. d. 45000 hestöfl, að orkan geti orðið ódýr, miðað við hvert hestafl. En þetta er ókleift, nema unt sje að selja a. m. k. 2/3 af orkunni til einhverrar fastrar iðju, því enginn landshluti getur torgað meiru en 1/3 af þessari hestaflatölu til almenningsþarfa. Þar að auki er þess að gæta, að af orku þeirri, sem látin er í tje til almenningsnota, hagnýtist ekki nema 1/3, sökum misjafnrar notkunar, eftir árstímum og dagtímum. Fyrirtæki það, sem afgangsorkan væri seld til, þyrfti því að starfa árlangt og geta aukið og minkað starfræksluna eftir vild, til að þessi mismunur á orkunýtingunni fari ekki forgörðum. Það er reikningsleg niðurstaða, að ef bygt er stórt orkuver, þar sem 1/3 fer til almenningsþarfa þá stundina, sem sú notkun er mest, en afgangurinn er notaður til fastrar iðju, þá má búast við, að orkan kosti ekki nema 1/8 eða 1/9 af því, sem hún yrði að kosta, ef hún væri unnin í litlu veri og seld eingöngu til almenningsnota. Nú getur kostnaðurinn við bygging og viðhald orkuvera altaf breyst, en sjálft hlutfallið milli kostnaðarins við stóra stöð og litla breytist ekki, og engin líkindi til að muni breytast, í svo fastar skorður sem tilhögun slíkra mannvirkja er komin. Til þess að orka svona stórs vers verði sem ódýrust. útheimtist það, að þeir, sem orkunnar eiga að njóta, fái notið þeirrar hagkvæmustu aðstöðu um virkjun, sem kostur er á. Nú er það sjálfsagt svo, að þar sem eignarrjettur einstaklinganna yfir rennandi vatni er viðurkendur, þá láta eigendur hinnar hagkvæmu aðstöðu eðlilega borga sjer fyrir hana, og getur þetta komið hart niður á þeim, sem orkunnar eiga að njóta, og munað t. d. alt að 100 kr. á hvert hestafl. Það eru þá í stuttu máli þrjú höfuðatriði, sem útheimtast til þess, að orkan verði sem ódýrust:

1. Að fallvatnið sje sem hagkvæmast til virkjunar og virkjendur fái að njóta hagkvæmninnar, í stað þess að hún sje unnin upp með tilsvarandi háu verði á fallvatninu óvirkjuðu.

1. Að orkuverin sjeu sem stærst, svo virkjunarkostnaðurinn á hvert hestafl geti náð lágmarki eftir stærð orkuversins.

2. Að nægilega mikill hluti orkunnar sje frá upphafi seldur til fastrar iðju, sem geti borið fyrirtækið uppi fjárhagslega að sínum hluta, og stutt fyrirtækið að öðru leyti með því að nýta að nokkru leyti afgangsorkuna frá almenningsþörfunum.

Okkur landlækni var það ljóst, að þessi meginatriði verður fyrst og fremst að hafa fyrir augum, þegar setja skal íslenska vatnalöggjöf og sjerleyfislöggjöf. Og löggjöfin getur í tveim meginatriðum ráðið miklu um, hvort þessi skilyrði verða fyrir hendi í landinu eða ekki. Með hagkvæmri vatnalöggjöf má hindra, að ónotuð vatnsorkan hlaupi upp í braskverð. Og með hagkvæmum sjerleyfislögum má koma í veg fyrir, að aðrar þungar kvaðir sjeu lagðar á þá virkjendur, eða þau orkuver, sem láta af hendi ódýra orku til almenningsþarfa. Þá gerir löggjöfin það, sem hún getur gert fyrir sitt leyti, til þess að landsmenn geti fengið það hnoss, sem ljós og hiti inn á heimilin óneitanlega er.

Nú hafa orðið æðimargar hindranir í vegi fyrir þessum hugsjónum okkar landlæknis.

Fyrst og fremst höfum við rekist á fossabraskarana. Þeir hafa hafið óhlutvanda æsingabaráttu í sumum blöðum, fundið upp slagorðið „vatnsrán“ og reynt að slá á eiginhagsmunahvatir bændanna. Þeir hafa lagt kapp á að fá grundvelli vatnalöggjafarinnar breytt sjer í hag, en vitanlega þagað vandlega um almenningsþarfirnar, sem við landlæknir höfðum fyrir augum.

Önnur hindrunin var hræðslan við innstreymi útlendinganna, ef stóriðja væri hafin hjer (innilokunarstefnan). Hún stafaði að miklu leyti af því, að miðað var við miklu stærri fyrirtæki á þessu sviði en þörf er á og upphaflega var ætlast til. Það þarf varla að taka það fram, að sú hræðsla er algerlega ástæðulaus og óþarft að setja hana í samband við okkar fyrirætlanir.

Til að starfrækja orkuna, sem fullnægði einum landshluta, og tilheyrandi iðjuver, sem notaði 2/3 orkunnar úr 45000 hestafla veri, myndi þurfa nærfelt 800 verkamenn, og þegar þess er gætt, að fólki hjer á landi fjölgar um 1000 á ári, þá ætti það að vera ljóst, að þetta getur ekki valdið neinu tjóni eða truflun, hvorki á atvinnuvegum vorum eða þjóðerni.

Þriðja hindrunin var breytt fjárhagsaðstaða fyrir vatnsorkuiðjuna. Er hún sprottin af nýjum uppgötvunum á sviði iðnaðarins og rafmagnsfræðinnar, þar sem tekist hefir að vinna áburð og fleiri nytsöm efni á annan ódýrari og hagkvæmari hátt en með notkun vatnsorku. Þessi hindrun er alveg afgerandi í svipinn, og eins og nú stendur vantar alt verkefni fyrir orkuna, og því engar líkur til, að sú iðja, sem þyrfti til notkunar orkunnar frá orkuveri því, sem jeg hefi miðað við, mundi geta risið upp í náinni framtíð. En auðvitað geta nýjar uppgötvanir áður en varir breytt þessu og skapað nýja möguleika með vatnsaflið. Og heimska væri það, að fresta löggjöfinni um þessi efni fyrir þær sakir, að skilyrðin sjeu ekki fyrir hendi í svipinn.

Nú var svo ástatt, að þegar fossanefndin sat að störfum, voru svo að segja öll stærstu og hagkvæmustu fallvötn landsins komin í hendur útlendinga, nema hluti landssjóðs og Reykjavíkurbæjar í vatnsrjettindum Sogsins. Ýmist voru vötnin seld eða leigð útlendum fjelögum til lengri eða skemri tíma. Af þessum ástæðum tókum við til athugunar, hvort fara skyldi eins að og Norðmenn 1880 og viðurkenna eignarrjettinn, og leggja síðan strangar sjerleyfishömlur á verslun þeirra. En okkur þótti of seint að fara þá leið. Við vorum búnir þegar að selja vatnsrjettindin í hendur útlendinga. Þegar Norðmenn settu sjerleyfislög sín, var búið að selja örfá fallvötn þar í landi til virkjunarfjelaga. Sjerleyfislög þeirra gátu ekki náð til þeirra fallvatna, og þetta var nú orðin aðstaða okkar að því er snerti allan þorra fallvatna hjer á landi.

En nú vill háttv. meiri hluti fara þessa leið og gefa útlendingunum allan þann framtíðargróða, sem vjer getum haft af notkun fallvatnanna. Jeg er ekki fyrir að nota stór orð, en get þó ekki látið hjá líða að flytja þessari háttv. deild þá orðsendingu frá fyrv. forseta Ed. og fyrv. meðnefndarmanni mínum, Guðmundi Björnsyni landlækni, eftir beinum tilmælum hans, að hann geti ekki skoðað þetta öðruvísi en föðurlandssvik.

Höfuðmótbáran gegn okkar stefnu er sú, að með henni sje hinn forni rjettur landeigenda fyrir borð borinn. Þetta er sú eina ástæða, sem komið hefir fram opinberlega, og mun jeg víkja að henni síðar. En fyrst vil jeg svara annari mótbáru, sem jeg hefi heyrt koma fram hjá einstökum óvitrum mönnum. Hún er sú, að eins, og eignarrjettur einstaklingsins yfir landi sje friðhelgur og viðurkendur, þá skuli hann eins vera það yfir vatninu, og afleiðingin af því að neita eignarrjetti á vatni hljóti að vera sú, að menn neiti þá líka eignarrjetti á landi. Jeg er nú enginn sameignarmaður, eins og háttv. deild mun kunnugt, en þetta gefur mjer tilefni til að draga fram hlið á málinu, sem rjett er að minnast á. Það hefir nefnilega frá öndverðu verið undirstaða vatnsrjettarins, að bakkabúar ættu einir þann rjett, sem þeir einir gætu notað, eða ættu miklu hægara með að nota en aðrir. En almenningur hefir á hinn bóginn frá öndverðu í öllum löndum átt rjett til þeirrar notkunar vatnsins, sem allir höfðu jafna aðstöðu til. Í mörgum löndum eru stór vatnsföll aðallega notuð til umferðar, og eru þá almenningar, og voru ákvæði um þetta tekin í Rómarjett og í þau landslög, sem þaðan eru leidd. Á Norðurlöndum er sú almenningsnotkun vatnsfalla tíðkuð, að flytja trjávið eftir þeim, og er þessi notkunarjettur almennings lögverndaður í mörgum vatnsföllum í Svíþjóð, á þann hátt, að þriðjungur vatnsfallsins eftir miðju er almennings- eða ríkiseign (konungsáll), en bakkabúar eiga hvor sinn þriðjung. Alt er þetta í samræmi við grundvallarregluna, sem jeg nefndi.

Það hafa verið stór aldahvörf í sögu mannkynsins, er fyrst var tekið að fleyta bátum eftir vatni, því með því var grundvöllurinn lagður að skiftingu vatnsrjettarins, þeirri, að smávötnin urðu einkaeign, en stórvötnin almenningar. En nú hafa nýlega gerst önnur aldahvörf, engu ómerkari. Áður gátu þeir einir hagnýtt sjer orkuna úr fallvötnunum, sem lifðu og störfuðu á vatnsbakkanum. En uppgötvanir síðustu áratuga hafa gerbreytt þessu, svo að nú er enginn teljandi munur lengur á aðstöðu bakkabúa og annara um orkunýtinguna. Nú má veita orkunni svo langar leiðir, að hún getur orðið í fylsta mæli almenningseign, og því er eigi nema eðlilegt, að sama aðstaða skapist um þá notkun, sem um hina eldri, að almenningur fái rjett til þeirrar vatnsnotkunar, sem hann þarfnast, jafnt og bakkabúar, og á jafnhægt með að veita sjer og bakkabúar. Og er þessi hugsun í fullu samræmi við þá viðurkenningu eignarrjettar að löndum og lausafje, sem þjóðfjelag vort byggist á.

Það eru líka ýmsir sjerstakir eiginleikar hins rennandi vatns, sem valda því, að einstaklingseignarrjettur á því er óvíða lögtekinn. Því ef hjer er um eign að tala, þá er það eign, sem er á sífeldu hvíldarlausu iði frá einum eiganda til annars. Þar sem háttv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) sagði, að í Noregi hefði engin deila verið um þetta atriði, þá er það víst gleymska einber hjá honum, því að hann veit vel, að um þetta stóð snörp deila kringum 1880. (SvÓ: Alls ekki um þetta). Jú, einmitt um þetta. Jeg get sýnt honum heila kafla í lögfræðibókum frá þessum tíma, þar sem um það er rætt, hvort eignarrjetturinn geti náð yfir svo hverfulan hlut sem þennan.

Þá kem jeg að höfuðmótbárunni, þeirri, að með þessu sje jarðeigandinn sviftur nokkru af fornum rjetti sínum. Jeg ætla þó að biðja hv. þm. Dala. (BJ) að svara þeim hluta þeirra „röksemda“, sem snerust um það í þessu efni að kalla álit okkar „kringilegt þingskjal“. ólíkindalæti o. s. frv., því hann getur gert það betur en jeg. En þar sem hv. frsm. meiri hl. (SvÓ) vitnaði í Grágás og Jónsbók, sínu máli til stuðnings, þá er það alveg gagnslaust. Því þar verður ekki fundið annað en það, að orðið „eiga“ er notað um þann rjett landeiganda, sem hjer er um að ræða. En ágreiningurinn í þessu máli er nú fyrst og fremst um það, hvort rjettur landeiganda til vatnsins sje eignarrjettur eða takmarkaður hlutarjettur og íslensk tunga, alt frá Grágás til vorra daga, notar sagnorðið „að eiga“ um hvorutveggja þennan rjett, og þá segir það sig sjálft, að það eitt, að lögbækurnar nota þetta orð, getur ekki úr því skorið, um hvora tegund rjettarins þar sje verið að ræða. Því til sönnunar, að orðið „eiga“ sje ekki notað eingöngu um eignarrjett í lagaskilningi, heldur líka um takmarkaðan hlutarjett, nægir að minna á t. d., að talað er um að eiga átak, og er þar þó aðeins um að ræða takmarkaðan hlutarjett. Það er jafnvel talað um að eiga veðrjett og eiga ábúðarrjett. Af notkun orðsins „eiga“ í Grágás og Jónsbók verður því ekkert ályktað um þetta.

Þá vísaði hv. þm. í lögin um eignarnám á Glerá í þessu sambandi. En hann fór þar villur vegar, því það var búið að virkja ána, og lögin voru einmitt sett af því að það var búið, og við í minni hlutanum mundum orða þetta enn á sama hátt og þar er gert, því við viðurkennum rjett manna til þess vatns, sem þeir hafa tekið til notkunar eða virkjað. Eins er það, að bætur fyrir landsspjöll á ætíð að greiða eftir okkar skilningi líka, svo að það var alveg óþarfi fyrir hv. frsm. meiri hl. (SvÓ) að vera að reyna að hártoga þetta í þessu sambandi. Annars yrði það of langt mál, ef jeg færi að rekja alt það, sem fram hefir verið fært með og móti því, hvort núverandi rjettur yfir vatni væri eignarrjettur eða ekki, enda mundi verða sagt svo um okkur leikmennina, að við bygðum þar meira á trú en þekkingu. Og jeg ætla því að fara fram á það við hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ), að hann sýni nú sína trú í verkum sínum og samþykki í dag að minsta kosti varabreytingartillaga okkar hv. þm Dala. (BJ) við 2. gr. frv., en hún kveður svo á, að rjettur landeiganda til vatns skuli vera sá, sem nú er og verið hefir. Ef hann gerir það ekki gengur hann af trú sinni, en við fyrir okkar leyti erum óhræddir við það, að láta setja þetta í lög.

Hv. þm. hafði einnig aðra ástæðu fram að færa gegn þessu, þá sem sje, að eftir okkar till. yrði 2. gr. í mótsögn við aðrar greinar frv., en frv. væri alt bygt á þeim grundvelli, sem hann telur rjettan, eignarrjetti landeiganda. Nú hljóðar aðaltillaga okkar á þá leið, að landareign hverri fylgi sá rjettur til vatnsumráða og hagnýtingar, sem lög þessi heimila. Hvernig þetta ákvæði, sem er tilvísun í allar aðrar greinar frv., geti verið í mótsögn við þær, fær víst enginn skilið. Það verður þá að vera varatillaga okkar, sú, að rjettur landeiganda skuli vera sá sami, sem nú er og verið hefir, sem að dómi þessa háttv. þm. (SvÓ) er í mótsögn við þau eignarrjettarákvæði, sem hann þykist finna í öðrum greinum frv. (SvÓ: Rangfærsla!). Já, jeg get óhikað skotið því undir dóm þeirra fáu, sem nentu að hlusta á ræðu hv. þm. (SvÓ), að hann sagði meðal annars, að lakara væri að samþykkja varatill. en hina. Annars er þetta að ýmsu leyti skiljanlegt um háttv. þm. (SvÓ), og ekki nema eðlilegt, að hann uggi nokkuð um sinn málstað. En sannleikurinn er sá, að það er fullkomlega gerlegt að samþykkja aðaltill. eða varatill. okkar við 2. gr., án frekari breytinga á frv., þó frv. verði hins vegar ekki vel orðað nema allar hinar einstöku brtt. okkar verði samþyktar líka. En þá mundi líka fást fram frumvarp, sem löggjafarvaldið gæti verið stolt af, þó það verði hins vegar líka nothæft með hinu mótinu, eða án samþyktar á hinum einstöku brtt. Reyndar sagði hv. þm. (SvÓ) í öðru sambandi, að 1. brtt. snerti ekki grundvöll frv., en gekk jafnframt svo langt að segja, að allar hinar miðuðu að því að gera stjórnarbyltingu í landinu. Og þá verður varla lengra komist í röksemdaþroti en þetta, að segja, að bein og einföld íhaldsákvæði, eins og varatillaga okkar við 2. gr. er, stefni að stjórnarbyltingu, og þarf jeg ekki að eyða fleiri orðum að því.

Jeg skal svo snúa mjer að því, sem hann sagði um störf milliþinganefndarinnar. Því það er ekki rjett, að hún hafi setið í marga mánuði sammála, þó hins vegar hafi liðið alllangur tími meðan hv. þm. (SvÓ) var að „fóta sig“, sem hann kallaði, og áður en við vissum, að hann var á annari skoðun en hinir, þá talaði háttv. þm. um það, að óhætt væri að samþykkja frv. eins og það legði sig nú, af því að margir góðir menn í Ed. hefðu um það fjallað, þar á meðal hv. 4. landsk. þm. (JM), og ber jeg að vísu mikla virðingu fyrir vitsmunum og vinnudugnaði þess háttv. þm. En jeg verð þó að segja, að í þessu máli virðist mjer afstaða nefndarinnar, sem hann átti einnig sæti í, allfurðuleg. Því auk vatnalaganna hefir nefndin jafnframt sent frá sjer sjerleyfislög, þannig úr garði gerð, að mjer er alveg óskiljanlegt, hvernig mönnum dettur í hug að samþykkja þá lagasamstæðu saman, og jeg ber enga virðingu fyrir þeim vinnubrögðum, sem það hafa gert eða ætlast til þess. Þeir, sem það geta, eru áreiðanlega ekki búnir að átta sig til fulls á grundvallaratriðum málsins. Jeg efast líka um það, að nokkur lögfræðingur hjer á þingi hafi sett sig svo inn í þetta sem þarf og ekki heyrt neinn þeirra taka ákveðna afstöðu, og ekki heldur stjórnina, sem þó leggur málið fyrir þingið. Og út í frá munu skoðanir lögfræðinganna skiftar líka.

Út af nál. minni hluta, sem jeg nú að öðru leyti get vísað til, spurði háttv. þm. (SvÓ). hverjir væru þeir þjóðarhagsmunir, sem þar væri talað um að stofna í hættu. Já — það eru — ef farið er inn á rangar brautir — möguleikar sveitaheimilanna á því að fá raforku til ljósa og hitunar í framtíðinni. Og ummæli hv. þm. um þetta atriði, að kalla það öfugmæli og slíkt, eru ekki annað en ein af mörgum auglýsingum hans um það, að hann vanti röksemdir. Skal jeg svo láta útrætt um þessi atriði í ræðu háttv. 1. þm. S.-M. ( SvÓ), en snúa mjer aftur að því, sem jeg hvarf fyr frá og er aðalefni ræðu minnar, sem sje skoðanir okkar Guðmundar Björnsonar landlæknis sjerstaklega í þessum málum í milliþinganefndinni. Við höfðum og höfum enn trú á því, að sá tími komi, að unt verði að ráða fram úr þeirri fjárhagslegu þraut að nota vatnsorkuna fyrir ljósgjafa og hitagjafa handa landsmönnum, og við förum því fram á það, að löggjafarvaldið sýni þá framsýni að taka tillit til nauðsynjarinnar á þessum framkvæmdum og leggja ekki stein í götu þeirra, og við förum fram á það, að þeir jarðeigendur, sem kynnu að hafa gert sjer von um að geta selt einhver vatnsrjettindi, sleppi þeim vonum vegna nauðsynjar eftirkomendanna.

Ef fulltrúar sveitakjördæmanna eru vissir um, að þeir með fullum heiðri geti jarðað þessa hugsjón okkar undir eignarákvæðum þessara vatnalaga, þá er okkur persónulega engin mótgerð sýnd með því. Hvorugur okkar býr í sveit, og við eigum ekki ljós eða hita undir ákvæðum þessara laga. En jeg bið þessa háttv. þm. áður en gengið er frá frv., að taka málið til raunverulegrar athugunar og íhuga, hvort það sje nokkuð, sem rekur eftir því að lögleiða nú slíkan eignarrjett á vatni, sem 2. gr. frv. fer fram á.

Í sveitunum hefir þetta mál mest verið flutt frá annari hliðinni, svo að sannleikurinn hefir dulist mörgum, og ættu þeir að íhuga, að þó að sannleikurinn eigi erfitt í bili, þá verður hann samt ávalt ofan á að lokum.

Ef háttv. þm. ljetu nú þennan einhliða málflutning villa sjer sýn, þá gæti svo farið, að þeim þætti það miður, er sannleikurinn hefir náð þeim yfirráðum hjer, er hann hlýtur að ná.

Vona jeg að minsta kosti, að bæði í nál. okkar og máli mínu hafi jeg sýnt það nægilega ljóst, að það tjáir ekki að samþykkja sjerleyfislögin eins og þau nú eru við hlið þessa vatnalagafrv. Eða ætla þeir að fara að dæmi Norðmanna? Sjá þeir sjer fært að fara þessa leið eftir að öll stórvötn eru komin í hendur útlendinga? Jeg sje ekki, að þetta sje fært, en það verður, ef 2. gr. vatnalagafrv. er samþykt eins og hún nú er. Verður þá ómögulegt að ráða bót á afleiðingum þessa, nema með því að setja í eitt skifti fyrir öll ákvæði, er hindri virkjun fallvatna, en þetta á ekki að vera markmiðið og er sannkallað örþrifaráð. Er það jafnóviturlegt sem að leggjast á móti því, að jörðin verði tekin til ræktunar. Jeg vil því enn biðja hv. þm. að athuga, hvort þeir geti að minsta kosti ekki greitt atkvæði með varatill. okkar við 2. gr.

Um aðrar brtt. okkar skal jeg ekki fara mörgum orðum, en háttv. frsm. meiri hl. (SvÓ) fór ekki rjett með, hverjar þær brtt. væru, er snerta ágreiningsatriðið um rjettargrundvöllinn, og hverjar ekki. Vil jeg því geta þeirra, svo að þessi ummæli háttv. frsm. meiri hl. blekki ekki.

1. brtt. okkar er aðeins um, að skilgreiningin á orðinu „almenningur“ falli burtu. Teljum við hana óþarfa, því að hún er alkunn.

3. brtt. er þess efnis, að fyrir „vatni“ komi: jarðvatni. Er þetta aðeins rjetting, svo að rökrjett hugsun raskist ekki.

4. brtt. er líka leiðrjetting á ákvæði, er sett var inn í frv. í Ed. og raskaði hugsuninni.

6. brtt. snertir heldur ekkert rjettargrundvöllinn, heldur er aðeins leiðrjetting á prentvillu eða málvillu, er komist hefir í frv. hjá Ed.

21. brtt. er líka rjetting. Grein frv. er meinloka, en sett rjett meining í hana með brtt.

22. og 25. brtt. eru líka rjetting. Hinar brtt. snerta grundvöllinn. En þó snertir ein hann ekki svo mikið, að ekki megi samþykkja hana sjerstaklega. Á jeg þar við 7. brtt., við 39. gr. Eru í henni ákvæði um skaðabótaskyldu fyrir töku áveituvatns. Er það reglan, að neysluvatn er látið ganga fyrir áveituvatni og áveituþörfin fyrir orkuþörfinni. Er víða skipað svo fyrir í frv., að ekki skuli krafist bóta, þótt vatn sje tekið til neyslu, og ekki heldur þótt orkuvatn sje tekið til áveitu.

Brtt. miðar að því, að ekki sje krafist bóta, þótt vatn sje tekið til áveitu, enda þótt það kunni að rýra orkunýting í framtíðinni.

Er þetta þess eðlis, að vel má samþykkja án þess rjettargrundvelli frv. sje raskað.