03.05.1923
Neðri deild: 56. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1966 í B-deild Alþingistíðinda. (1813)

9. mál, vatnalög

Atvinnumálaráðherra (KIJ):

Það er aðeins út af þeim orðum, sem seinast fjellu, sem jeg vildi segja nokkur orð.

Jeg hefi nú athugað nákvæmlega þessa samningatilraun, sem háttv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) gat um nú seinast í ræðu sinni, og hefi jeg komist að þeirri niðurstöðu, að hún sje aðgengileg. Kemur hún og í engan bága við þá grundvallarskoðun í þessu máli, sem jeg fylgi. Tel jeg hana meira að segja fult eins góða og frv.- greinina, sem hún á við. Þar er sagt, að rjetturinn sje bundinn þeim takmörkunum, sem gildandi lög um þetta efni feli í sjer, en till. ákveður, að rjetturinn skuli bundinn þeim takmörkunum, sem þessi lagabálkur sjálfur felur í sjer, og hann er allur bygður á eignarrjetti einstaklingsins yfir vatninu. Að vísu skal jeg játa, að þetta er ekki eins vel orðað og í norskum og sænskum lögum, en þó lít jeg svo á, að vel megi una við þetta. Jeg tel ekki svo mikla hættu á því, að svo fari, sem háttv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) óttaðist, að málið nái ekki fram að ganga á þessu þingi, ef þessi till. yrði samþykt. Þetta mál getur hæglega komið inn aftur á laugardaginn, og er þá engin hætta á öðru en að tími vinnist til að afgreiða það. Geri jeg auk þess ráð fyrir, að tími sparist miklu fremur við þetta, er ágreiningnum lýkur og menn fara samhuga að vinna að því að hraða málinu. Verður þetta því besta leiðin fyrir þá, sem á annað borð óska eftir því, að málið komist sem fyrst frá.