05.05.1923
Neðri deild: 58. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1970 í B-deild Alþingistíðinda. (1816)

9. mál, vatnalög

Frsm. meiri hl. (Sveinn Ólafsson):

Af því að hjer er ráðgerð úrslitaumr. um vatnamálið í deildinni, verð jeg að gera nokkrar athugasemdir við það. Jeg mun greiða atkvæði á móti því, að það verði afgreitt, og tel rjettara, að það bíði betri tíma. Þetta er afleiðing af skemd, sem varð á 2. gr. frv. við 2. umr. hjer. Greinin skilgreindi áður eignarrjett landeigandans að vatnsrjettindunum og endimarkaði hann, líkt og gert er í vatnalögum allra Norðurlandaþjóðanna, en breytingin tók þá skilgreiningu burtu. Afleiðingin er, að lögin eru orðin ósamræmileg við 2. gr. og svara ekki til fyrirsagnarinnar, jafnvel þótt þau með lögskýringum á ýmsum síðari greinum þeirra viðurkenni og lögfesti eignarumráð landeigandans, svo sem með því að ákveða honum fullar bætur fyrir öll vatnsrjettindi, sem tekin verða af honum nauðugt til annarlegrar notkunar. Eins og þetta frv. lítur nú út, þá ætti það að heita frv. til laga um takmörkun á umráðarjetti yfir vatnsrjettindum, líkt og lögin frá 1907, og þá ætti að fella niður úr síðustu grein tilvitnunina í Jónsbók.

Mál þetta er enn þá ekki orðið nægilega ljóst öllum. Að vísu viðurkenna allir rjett landeigandans, og það gerðu jafnvel mótstöðumenn mínir í þessu máli við síðustu umræðu, er þeir greiddu atkvæði með öllum ákvæðum frv. um skaðabætur til landeigandans fyrir hverskonar notkun vatnsins eftir lögnámi. En sú sjálfsagða afleiðing af því að samþykkja slíkt á að vera og hlýtur að vera sú, að lögin skilgreini þennan rjett, sem lögnuminn er, og greini frá takmörkum hans. Þetta hafa grannþjóðirnar fundið og tekið skilgreininguna upp í lög sín, ljósa og ákveðna, en þar á eftir sett takmarkanirnar, og þetta munu menn alment finna hjer líka, þegar málið er vel athugað. Um hitt er jeg ekki hræddur, að hugmyndin um eignarrjettinn máist eða dofni, þótt málið bíði.

Eitt það, sem heldur til þess að lata málið bíða, er það, að varla er hægt að taka á samningu sjerleyfislaga, nema ákveðinn sje ljóslega sá rjettur, sem sjerleyfislögin eiga að takmarka og ákveða nánar um, hvernig notaður verði.

Jeg þykist þess fullviss, að mikill meiri hl. þingsins vilji afgreiða málið eftir þeirri stefnu, sem frv. markar, og með fullri viðurkenningu þess rjettar landeiganda, sem deilt hefir verið um, en þá hlýtur það líka að vilja afgreiða það svo ljóslega orðað um þessa hluti, að ekki spinnist óþarfar deilur um óskýrt orðalag.