05.05.1923
Neðri deild: 58. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1974 í B-deild Alþingistíðinda. (1820)

9. mál, vatnalög

Bjarni Jónsson:

Mjer sýnist svo, sem hæstv. atvrh. (KIJ) hafi komið vel og viturlega fram í máli þessu.

Hefði jeg að vísu kosið, að betur hefði verið frá frv. þessu gengið, en úr því sem komið er, mun jeg geta sætt mig við það, og mun jeg standa við það sáttatilboð, er jeg hefi áður fram borið í máli þessu.

Veit jeg, að háttv. þm. munu ekki hafa snúist í máli þessu frá því, er þeir greiddu atkvæði um það fyrir nokkrum dögum, og voru þá 19:4 með því.

En dálítið er það skrítið, að háttv. 1. þm. S.-M. (SvÓ), sem situr þó með lárviðarkransinn í þessu máli, skuli nú snúast gegn því og vilja drepa sitt eigið fóstur. Var honum þó svo brátt að fá málið á dagskrá, að hann vildi fá það tvisvar áður en vjer minni hl. gátum komið því við að skrifa nál.

Mun jeg svo láta útrætt um mál þetta.