24.04.1923
Neðri deild: 49. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1702 í B-deild Alþingistíðinda. (1833)

124. mál, friðun á laxi

Þórarinn Jónsson:

Mjer kemur þetta frv. alleinkennilega fyrir sjónir og get naumast skilið, að rjett sje að láta það ganga fram. Með því væri þeim gert rangt til, sem ofar búa við árnar. Og svo er annað það, að ef þessi undanþága frá lögunum á þessum stað er leyfð, má sjálfsagt búast við því, að aðrar samskonar kröfur komi annarsstaðar frá, og þá er misboðið friðun laxins og kipt burtu úr lögunum helstu öryggisráðstöfunum. Hinu á jeg bágt með að trúa, sem hv. flutningsm. (ÞorlG) sagði, að laxinn væri veiddur þarna helst á haustin, því þá sýnist veiðitíminn vera settur mjög óheppilega af sýslunefndinni og koma í bága við laxveiðilögin, því óheimilt er að veiða lax á niðurgöngu. En sjerstaklega eru þetta rjettarspjöll fyrir þá, sem búa við smærri ár, sem falla í Ölfusá, og hjer liggur ekkert fyrir um samþykki þeirra, enda að líkindum ekki unt að fá það, og því fráleitara er frv.