24.04.1923
Neðri deild: 49. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1703 í B-deild Alþingistíðinda. (1835)

124. mál, friðun á laxi

Flm. (Þorleifur Guðmundsson):

Hv. 2. þm. Húnv. (ÞórJ) talaði um það, að þetta yrði til þess að misbjóða friðun laxins. En þetta er misskilningur, eins og jeg hefi áður bent á, því að þegar um friðun í lögum er að ræða, þá er það auðvitað gert til þess að efla framleiðsluna, en ekki til þess að laxinn geti leikið lausum hala, aðeins til þess að geta spriklað upp og niður árnar aðeins sjer til skemtunar. Hann talaði um það, að við værum lögbrjótar við laxveiðarnar, en það er aðeins af því, sem hann segir slíkt, að hann þekkir ekki friðunartímatakmörkin, sem sett hafa verið fyrir austan, því haustveiðarnar, sem jeg talaði um, eru engin lögbrot. Þá er engin hætta á því, sem hann talaði um, að þetta skapaði hættulegt fordæmi fyrir aðra, því hjer stendur alveg sjerstaklega á og er hvergi svipað, nema í Þjórsá kannske, en þar er aðeins veitt á Urriðafossi. Jeg vil því endurtaka það, að það er allsendis hættulaust og sjálfsagt að samþykkja þetta frumvarp.