30.04.1923
Neðri deild: 53. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1705 í B-deild Alþingistíðinda. (1840)

124. mál, friðun á laxi

Frsm. (Gunnar Sigurðsson):

Jeg skal reyna að gefa ekki tilefni til langra umræðna. Allshn. gerði sjer far um að íhuga þetta mál vel, en það þurfti ekki langrar athugunar, því að við 2 nefndarmenn erum nákunnugir á þessum slóðum og þekkjum alla aðstöðu. Þó að jeg sje meðflutningsmaður frv., leit jeg strax svo á, að hentugra mundi að breyta frv. á þann hátt, er nefndin leggur til. Breytingin er sú, að undanþágan, sem felst í frv., nái til Ölfusár einnar, en sem kunnugt er, er það heiti Hvítár fyrir neðan Sog. Þetta er tiltölulega stuttur spölur. Er svo háttað neðst frá árósum, að þar eru miklar grynningar og rennur áin þar í kvíslum; er algerlega óhugsandi að stöðva þar lax í göngu, enda veiði engin, þó að lax slæðist þar einstaka sinnum í net. Um miðbik þessa kafla, í kringum Selfoss, hagar þannig til, að áin fellur ýmist í hávöðum eða hyldjúpum kaststrengjum, svo að ógerningur er að hemja net, nema við blábakkann, út að strengbrúninni. Það er fyrir ósk þeirra bænda, er stunda veiði þarna, að frv. er komið fram. Veiði er þar að vísu ekki mikil, en þetta ákvæði laganna, sem þeir biðja um undanþágu frá, veldur þeim talsverðum óþægindum. Þar sem þessi undanþága gerir engum öðrum baga, en þessir menn telja hana mikilsverða, þykist jeg viss um, að hv. deild muni samdóma nefndinni, að rjett sje að samþykkja frv.

Jeg skal taka það fram, að háttv. 1. þm. Skagf. (MG) var ekki á nefndarfundi vegna lasleika, þegar frv. var rætt; tjáði hann mjer, að hann mundi ekki gera ágreining um þetta í nefndinni, en auðvitað er atkvæði hans óbundið.