02.05.1923
Neðri deild: 55. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1708 í B-deild Alþingistíðinda. (1844)

124. mál, friðun á laxi

Eiríkur Einarsson:

Jeg á brtt. við frv. þetta, og vil jeg því fara nokkrum orðum um afstöðu mína til þessa máls. Jeg greiddi atkv. með frv. til þessarar umræðu, og mun gera svo enn, án tillits til brtt. minnar. Jeg kom með hana aðallega í samræmisskyni.

Þeir, sem mæltu á móti frv. síðast, gerðu það vegna þeirrar höfuðástæðu, að veiðirjettur þeirra, sem ofar búa með Ölfusá, yrði fyrir borð borinn. En jeg held, að ekki sje gerandi mikið úr þessu. Ölfusá er svo mikið vatnsfall, að lagnetaveiðin stöðvar aldrei gönguna að ráði. En það er önnur hindrun, sem er verri, og það er selurinn, sem liggur í ósunum.

Á hinn veginn þótti mjer ósanngjarnt, að þeir, sem ofar búa með ánni, fengju ekki eins að njóta undanþágunnar, og því kom jeg með mína brtt. Mjer finst, að það sje enn þá minna í húfi, þótt undanþágan verði veitt þeim fáu bændum, er stunda lagnetaveiði hið efra með Hvítá, en Ölfusárveiðieigendum. Og eins og jeg hefi áður sagt, flyt jeg brtt. einungis til að koma í veg fyrir misrjetti með þeim, er búa neðar og ofar með ám þessum, er mjer finst eigi laust við, að eigi sjer stað, ef gert er upp á milli þeirra með þessari undanþágu. Annars mun jeg ekki halda þessari brtt. fast fram, ef einhverjum skyldi vera það kappsmál, að undanþágan næði til Ölfusár einnar, og þessi brtt. yrði frv. til falls, og vona jeg, að ef svo væri, þá ljeti hann til sín heyra. En það vil jeg þó fullyrða, að slíkar mótbárur væru ástæðulausar.