02.05.1923
Neðri deild: 55. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1709 í B-deild Alþingistíðinda. (1845)

124. mál, friðun á laxi

Frsm. (Gunnar Sigurðsson):

Sem frsm. allshn. í þessu máli vil jeg taka það fram, að við 2. umr. lýsti jeg því yfir, að nefndin sæi sjer eigi fært að fara lengra en þetta, að láta undanþágurjettinn ná til Ölfusár einnar. Álitum við það hættulaust með þá á, en alt öðru máli er að gegna með árnar, sem renna í hana, því þær eru svo miklum mun vatnsminni. Þar sem nú háttv. 1. þm. Árn. (EE) er ekki kappsmál með þessa brtt., þá óska jeg eftir, að hann taki hana aftur, svo að hún verði því eigi til fyrirstöðu, að frv. gangi í gegn.