02.05.1923
Neðri deild: 55. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1711 í B-deild Alþingistíðinda. (1847)

124. mál, friðun á laxi

Eiríkur Einarsson:

Út af því, sem hv. þm. Borgf. (PO) sagði skal jeg taka það fram, að enginn af þeim, sem hlut á að máli, hefir beðið mig að koma fram með þessa brtt. Jeg tók það upp hjá sjálfum mjer, af því mjer virtist það vera sanngirniskrafa. En annars finst mjer málið smávægilegt, og get jeg upplýst háttv. þm. Borgf. (PO) um það, sem jeg hygg, að hann viti ekki, að hin aukna undanþága samkvæmt minni brtt. mundi varla ná til fleiri jarða en svo sem þriggja til fimm, og er þar hvergi mikil veiði. Er þetta því óþarft veður í háttv. þm. Borgf. Er þar líkt á komið með aðstöðu sem hið neðra við Ölfusá, og lendir vitanlega langminst af þeim laxi, sem upp eftir ánni gengur, í netunum. Það er, eins og tekið hefir verið fram, selurinn, en ekki lagnetin, sem spillir mest laxveiðinni. Það var rjett hjá hv. þm. Borgf. (PO), að í Árnessýslu er ekki að ræða um aðrar laxár en Ölfusá og Hvítá, árnar, sem renna í þær, og svo Þjórsá.

Um efstu árnar, þær sem renna í Hvítá, má segja það, að þar er alls ekki um neina lagnetaveiði að ræða, en Hvítá er svo vatnsmikil, að lagnetin stöðva laxinn í henni ekki að mun.

Þjórsá fylgir Árnessýslu að hálfu leyti, en þar er aðeins um eina laxveiðijörð að ræða, Urriðafoss. Mundi því undanþágan hvorki gera til nje frá viðvíkjandi þeirri á.

Er það því augljóst, að hv. þm. Borgf. (PO) notar brtt. mína aðeins sem yfirvarpsástæðu, til þess að hverfa nú frá skoðun sinni, og álít jeg, að hún hafi ekki verið föst hjá honum, ef hann breytir henni nú.

Háttv. allshn. lagði með því við síðustu umr. málsins, að frv. næði fram að ganga, og er hennar dómur óhaggaður eftir sem áður, þrátt fyrir þessa brtt. En til þess að leggja ekki stein í götu málsins, þá tek jeg hjer með brtt. mína aftur. (JA: Þá leyfi jeg mjer að taka hana upp). Hv. þm. tekur hana upp aftur einungis til þess, að hægt sje að hafa hana að yfirvarpsástæðu gegn frv. Er þar eins á komið með þeim tveim háttv. þm., og vona jeg, að aðrir háttv. þm. feti ekki í fótspor þeirra að þessu leyti.