02.05.1923
Neðri deild: 55. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 1712 í B-deild Alþingistíðinda. (1849)

124. mál, friðun á laxi

Pjetur Ottesen:

Þegar jeg andmælti frv. vegna þess ofurkapps, er háttv. 1. þm. Árn. (EE) leggur á að láta undanþágu þessa ná til allra ánna í Árnessýslu, var hann að gera sjer í hugarlund eitthvað samband milli mín og háttv. 2. þm. Skagf. (JS) á móti frv. Mjer er ekki kunnugt um, að neitt samband sje á milli afstöðu minnar og þess, að háttv. 2. þm. Skagf. (JS) hefir nú tekið upp brtt. á þskj. 503. Að Ölfusá einni undantekinni, mundi auðvelt að hamla laxgöngu í þessum ám, sem í hana renna, að miklum mun, ef engin friðun væri. Þeir menn, sem búa nálægt árósum, mundu standa miklu betur að vígi en aðrir, ef þessari friðun væri algerlega kipt burtu. Jeg vona, að menn sjái, hve hvumleitt það mundi verða, ef margskonar ákvæði gilda þar, sem ár skifta sýslum, og netin mættu altaf liggja við annan bakkann, en hinu megin yrði að taka þau upp um hverja helgi, samkvæmt lögum. Það er vegna kapps háttv. 1. þm. Árn. (EE), sem jeg get ekki fylgt frv., og engu fremur þó hann taki nú brtt. sína aftur.