02.03.1923
Efri deild: 8. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 20 í C-deild Alþingistíðinda. (1876)

3. mál, hjúalög

Atvinnumálaráðherra (KIJ):

Jeg hefi ekki ástæðu til að svara hv. frsm. (JM) miklu, því að í raun og veru er ágreiningurinn ekki mikill milli okkar. Hann er aðallega um aðferðina, en ekki efnið sjálft. Hv. frsm. játaði, að það væri ósamræmi milli 1. brtt. og 2. gr. tilsk. 1866, en sagði að það skifti ekki máli, því að öll þau ákvæði, sem riðu í bága við fyrirmæli þessa frv., væru numin úr gildi. En það er ekki víst, að þeir, sem eiga að búa við þessi lög í framtíðinni, athugi mótsögnina, og því er vert að benda á þetta og kippa því í lag nú, úr því mótsögnin er bersýnileg.

Þá kem jeg að 9. gr., um vitskert hjú. Hv. frsm. sagði, að það væri ekki ástæða til að hafa sjerstök ákvæði um þau, því það væri svo miklum erfiðleikum bundið um meðferð þeirra, að það yrði að fara eftir atvikum í hvert skifti. Það er satt, að það er mjög miklum erfiðleikum bundið, um það er mjer persónulega kunnugt frá því jeg var sýslumaður. Sveitarstjórnirnar voru oft og tíðum í standandi vandræðum. Híbýlum er víða svo háttað, að ómögulegt er fyrir húsbóndann að hafa hjúið á sínu heimili, og verður þá að reyna að koma því fyrir annarsstaðar. Jeg get tekið til dæmis, að einu sinni meðan jeg var sýslumaður varð maður vitskertur lengst inni í Eyjafirði, og á því voru engin tök að koma honum fyrir annarsstaðar en í fangahúsinu á Akureyri. 9. gr. heimilar nú húsbóndanum að krefjast þess af sveitarstjórninni, að hún ráðstafi sjúklingnum þegar í stað, ef hjúkrun hans er sjerstökum erfiðleikum bundin. Jeg sje ekkert á móti því að lögbinda þetta. Það mun hvort sem er vera svo nú í framkvæmdinni, að húsbóndinn leitar til sveitarstjórnanna. Munurinn er því bara sá, að þær verða skyldugar að ráðstafa sjúklingnum.

Þá er 18. gr. Hv. frsm. vill ekki fallast á, að það sje tekið í lög, að hjúið fái að haga vinnutíma sínum þannig, að það geti sótt þá skóla, sem þar greinir, og sagði, að það mætti bara gera sjerstaka samninga um það. Jeg skal játa, að það hefði mátt taka það greinilega fram, að jeg átti aðallega við kvöldskóla.

T. d. Iðnskólinn hjer í Reykjavík er haldinn á kvöldin, á þeim tíma, þegar hjúin eru búin með verk sin. Það er gott að vísa til frjálsra samninga um þetta, þeir eru bara aldrei gerðir, og því er nauðsynlegt að hafa ákvæði um þetta atriði í lögum. Hv. frsm. sagði, að ef gengið yrði inn á þessa braut, þá yrði að halda lengra og fara fram á árlegt frí. Það get jeg vel gengið inn á, og ef hv. frsm vildi koma með eitthvað í þá átt, þá mundi jeg ekki vera á móti því. Auðvitað gæti ekki komið til mála, að það yrði á sumrum, heldur á vetrum, og mun það venja, að hjú til sveita fái slík frí. Svo kallaðar orlofsferðir munu vera algengar enn í dag.

Hv. frsm. játaði, að sum ákvæði tilsk. 1866 væru orðin úrelt, en því þá ekki að nema þau úr gildi, eins og gert í frv. stjórnarinnar?