02.03.1923
Efri deild: 8. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 22 í C-deild Alþingistíðinda. (1878)

3. mál, hjúalög

Atvinnumálaráðherra (KIJ):

Það er rjett, að ekki hefir verið minst á rjettarfarið í hjúamálum.

Jeg geri það nú raunar ekki að kappsmáli, hvort þessi mál verða rekin sem einkamál eða sem einkalögreglumál. — En mjer finst eðlilegast, að þessi mál sjeu rekin sem venjuleg einkamál; það var áreiðanlega meiningin, þegar tilsk. 15. ág. 1832 var gefin, að öll einkamál hjer skyldu rekin samkvæmt henni. Að ekki var farið eftir henni fyrst lengi, var sýslumönnunum eingöngu að kenna. Þeir höfðu fengið mentun sína við Kaupmannahafnarháskóla og lært eingöngu dönsk lög, og hjeldu sig því við þau, þrátt fyrir skipunina.

Jeg skal líka geta þess, að mjer fundust þessi mál einkar vel fallin til þess að koma fyrir sáttanefnd, því að vanir sáttanefndarmenn, einkum til sveita, eru fult eins lagnir á að koma sáttum á milli manna eins og dómarar. Af þessum ástæðum vildi jeg hafa hina venjulegu einkamálameðferð í þessum málum.

Háttv. frsm. (JM) sagði, að nefndin hefði athugað þetta frv. vel. Getur verið, en víst er um það, að hún var fljótvirk við það. (JM: Það eru duglegir menn í nefndinni).

Já, það kann vel að vera. En jeg þykist nú þó hafa bent á, að töluvert ósamræmi er í þessum tillögum hennar.