24.03.1923
Neðri deild: 28. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 29 í C-deild Alþingistíðinda. (1895)

71. mál, einkasala á saltfiski

Flm. (Jón Baldvinsson):

Það lítur út fyrir, að háttv. deild ætli nú einu sinni að bregða vanda sínum og ljúka við dagskrána í þetta sinn. Vil jeg ekki á neinn hátt tálma því, að þetta takist, og skal lofa því að vera stuttorður. Það lá og nýlega svipað mál fyrir í háttv. deild, og nægir mjer að vísa til þess, er jeg þá sagði um það, þar eð bæði frv. eru til orðin af mjög svipuðum ástæðum.

Öllum mun nú vera orðið kunnugt um mistök þau, er hafa átt sjer stað um fisksöluna að undanförnu. Sala fiskjarins er nú nær eingöngu komin á örfárra manna hendur, og þeir flestir útlendir. Gæti þetta orðið sterk hvöt þeim mönnum, sem annars eru mótfallnir einkasölu, að fallast einmitt nú á þetta frv., er þeir íhuga ástandið, hvernig það nú er. Sumir hafa haldið því fram, að mistökin á fisksölunni bitnuðu aðallega á þeim, er söluna hefðu á hendi, þ. e. fisksölunum sjálfum. En vjer höfum þess áþreifanleg dæmi, að þetta er ekki rjett. Í raun og veru bitna mistökin fyr eða síðar á allri þjóðinni. Það þarf ekki lengra að fara en það, að nýlega hefir útlendum fiskkaupmönnum verið gefið upp stórfje, er þeir voru komnir í kröggur. Þótt fje þetta væri eign Íslandsbanka, er það samt tekið frá allri þjóðinni, og öllum hugsandi mönnum ætti nú að þykja mál til komið að reisa skorður við þessu. Það má vel vera, að frv. þetta þurfi umbóta við í einhverjum atriðum, en jeg vona að því verði vel tekið, og vil ekki fjölyrða um það að sinni, er jeg hefi heitið að vera ekki langorður, en vænti, að það fái að ganga til 2. umræðu, og legg jeg til, að því verði vísað til sjávarútvegsnefndar.