24.03.1923
Neðri deild: 28. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 31 í C-deild Alþingistíðinda. (1900)

89. mál, þingmannakosning í Reykjavík

Flm. (Jón Baldvinsson):

Það er augsýnilega kominn vígahugur í hv. deildarmenn, og er jeg því ekki alveg viss um, hvort rjett sje að láta góð málefni eiga undir högg að sækja til þeirra; þó held jeg, að jeg verði að eiga það á hættu, að þetta frv. verði ekki felt frá 2. umr., því jeg geri ráð fyrir, að hv. deildarmenn vilji verða vel við jafnsanngjörnum óskum og vilji veita oss þennan sjálfsagða rjett, sem frv. fer fram á, og þætti mjer ilt til þess að vita, ef öðruvísi færi.

Samkvæmt manntali í Reykjavík 1920 voru þá þar yfir 18 þús. íbúar. Ætti því Reykjavík að hafa 7 þm. á móts við önnur kjördæmi landsins, þar sem að jafnaði eru um 21/2 þús. um 1 þm. Það eru aðeins 5 kjördæmi, sem eru hærri en þetta; öll önnur eru með miklu lægri íbúatölu á hvern þingmann. Ætíð, þegar breytingar á þingmannatölu hafa átt sjer stað, hefir verið miðað við íbúatölu á þm. Þannig var það, er Akureyri, Ísafjörður og Seyðisfjörður fengu þm. út af fyrir sig; var miðað við íbúatölu á þm., móts við önnur kjördæmi landsins. Á sama hátt er auðsær rjettur Reykvíkinga til að hafa 7 þingmenn, og svo framarlega sem hið háa Alþingi vill vera sjálfu sjer samkvæmt og vill gera rjett, á það að samþykkja þetta frv.

Þá vil jeg drepa á önnur atriði þessa frv. Svo stendur á, að í Reykjavík gilda og verða að gilda önnur ákvæði um kosningar en víðast annarsstaðar á landinu. Það er t. d. greinilegt, ef eigi á að byrja kjörfund fyr en kl. 12 á hádegi, að þá verður kosningunni ekki lokið, ef allir kjósendur eiga að geta kosið, á skemri tíma en einum sólarhring; að minsta kosti mundi kosning ganga langt fram á nótt, ef ekki er hægt að byrja fyr. Í þessu frv. er heimild til að byrja kjörfund fyr, og fleira, sem þörf er á að breyta. Síðast voru hjer settar kjördeildir víðar en á einum stað, og það þurfa að vera heimildarákvæði í lögunum um, að kosningar fari fram á mörgum stöðum. Það er lagt svo mikið vald í hendur bæjarstjórnarinnar, að hún ætti að geta fengið einnig að ráða þessu. Þó að kosningar hjer í Reykjavík hafi farið þann veg úr hendi, að jafnvel Alþingi hafi orðið að ávíta bæjarstjórnina fyrir, hefir það ekki verið bæjarstjórnarinnar sök, heldur hitt, að ákvæði laganna hafa verið orðin úrelt og ekki átt við hjer lengur. Þó að einhverjum háttv. þm. kunni að þykja vera nógu margir þm. í Reykjavík, vona jeg þó, að frv. þetta verði athugað vel og að það fái að fara til 2. umr., þó ekki væri nema vegna umbóta þeirra á kosningalögunum, er í því eru falin.