09.03.1923
Neðri deild: 16. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 155 í B-deild Alþingistíðinda. (192)

52. mál, berklaveiki

Atvinnumálaráðherra (KIJ):

Háttv. þm. Borgf. (PO) hefir gert glögga grein fyrir hvernig á frv. þessu stendur, að það er sjúkdómstilfelli í Neðri-Hvestu í Arnarfirði, sem hefir hrundið málinu af stað. Þegar dýralæknirinn í Stykkishólmi hafði farið vestur og skoðað hina sjúku nautgripi, hófust brjefaskriftir um málið milli mín og dýralæknisins í Reykjavík, og skoraði jeg á hann að semja frv. um varnir gegn þessum sjúkdómi. Hann samdi svo frv. það, sem hjer liggur fyrir. Ástæðan til þess, að jeg lagði þetta frv. ekki fyrir þingið, heldur kaus að fá það landbúnaðarnefnd í hendur, var sú, að dýralæknir samdi einnig annað frv., þar sem farið var fram á, að dýralæknirinn í Sunnlendingafjórðungi yrði einskonar yfirdýralæknir. Í fyrra frv. stóð, að allar skýrslur og öll mál skyldu ganga til hans, áður en þau færu til stjórnarinnar. Það er auðsætt, að með því að víkja frv. dálítið við og láta málin ganga beint til stjórnarinnar, eins og nefndin hefir gert, mátti komast hjá þessu. Nýja fyrirkomulagið, er dýralæknir stakk upp á, hefði haft nokkurn kostnað í för með sjer, verið sama sem að stofna nýtt embætti. En stjórnin sá sjer það ekki fært; þótti ósamræmi í að leggja það til um leið og hún fer fram á að leggja niður mörg gömul embætti. Hins vegar vildi hún ekki skilja frv. sundur, og kaus því að leggja þau bæði fyrir háttv. landbúnaðarnefnd og leita álits hennar um þau. En nefndin hefir heldur ekki sjeð ástæðu til að bera fram hitt frv. dýralæknisins.

Í raun og veru væri það ekki ósanngjarnt, þó að dýralæknirinn í Reykjavík fengi einhverja aukaþóknun fyrir það mikla starf og erfiði, sem hann hefir oft lagt á sig í þarfir stjórnarinnar. Hann er elstur dýralæknir hjer á landi og situr næst stjórninni, og er því eðlilegt, að hún leiti oftast aðstoðar hans og ráða. Þegar svo ber undir. Hann verður því að hafa ýms aukastörf fyrir stjórnina, og frá því sjónarmiði væri ekki óeðlilegt, að hann hefði hærri laun en aðrir dýralæknar. En svo sem jeg skýrði frá þótti stjórninni ekki tiltækilegt að leggja það frv. fyrir þingið.

Að öðru leyti sje jeg ekki ástæðu til að fjölyrða um málið. Háttv. þm. Borgf. (PO) talaði svo vel fyrir frv., að öllum þdm. hlýtur að vera ljóst, hve brýn nauðsyn er á að stemma stigu fyrir þessari sýki og útrýma henni á þeim fáu stöðum, sem henni hefir skotið upp, því að mjög útbreidd getur hún ekki verið. Vona jeg því, að háttv. þdm. taki frv. vel og ljái því einróma fylgi sitt.