27.02.1923
Neðri deild: 7. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 50 í C-deild Alþingistíðinda. (1920)

17. mál, afnám yfirskjalavarðarembættisins við Þjóðskjalasafn Íslands

Sveinn Ólafsson:

Það er aðeins lítil athugasemd, sem jeg vildi kom með. Háttv. þm. Dala. (BJ) vildi vefenga, að úr fjarlægum sveitum landsins hefðu háværar kröfur borist um sparnað, og jafnvel neita því, að Dalamenn styddu kröfurnar um embættafækkun.

Þessa kenningu háttv. þm. held jeg rjett að athuga nánar, og það vill svo vel til, að jeg hefi hjer í höndum fundargerð úr Dalasýslu frá janúar næstl., sem sker úr um þetta. Þar standa meðal annars þessi orð:

„....Fundurinn telur líklegt, að betur megi nota starfskrafta ýmsra embættismanna í Reykjavík, og að sameina megi þar ýms skyld embættisstörf og draga úr starfsmannahaldi við ýmsar opinberar stofnanir til sparnaðar. — Samþykt í einu hljóði.“

Og í öðru lagi:

„Fundurinn skorar á Alþingi að draga sem mest úr fjárveitingum úr ríkissjóði, nema til samgöngubóta og til að auka framleiðsluna í landinu. Sjerstaklega leggur hann áherslu á, að sem minstu fje sje varið til styrkveitinga og bitlinga til einstakra manna. Samþykt með öllum greiddum atkvæðum.“

Svona líta þá Dalamenn á þetta mál og koma þarna í baksegl við hv. þm. Þetta samþykkja hans elskulegu kjósendur, og virðast mjer þeir höggva allnærri í síðari tillögunni. Jeg mátti til að drepa á þetta; að öðru leyti ætla jeg ekki að lengja umræðurnar, með því að hv. þm. er fjarstaddur.