03.04.1923
Neðri deild: 32. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 52 í C-deild Alþingistíðinda. (1923)

17. mál, afnám yfirskjalavarðarembættisins við Þjóðskjalasafn Íslands

Frsm. meiri hl. (Magnús Guðmundsson):

Jeg sje ekki ástæðu til að vera margorður um þetta frv. Það er leitt, að hæstv. forsrh. (SE) skuli ekki vera viðstaddur, en það gerir ekkert til vegna þess, sem jeg ætla að segja, því að jeg mun ekki veitast að frv., svo sem auðsætt er af nál.

Meiri hluti nefndarinnar áleit rjettara að orða frv. svo, að embættin væru sameinuð, heldur en að annað embættið skyldi lagt niður. En það getur ekki orðið neitt kappsmál milli hæstv. stjórnar og meiri hl., því að hvorttveggja kemur í sama stað niður, þegar annað embættið losnar, á sá, sem situr í hinu embættinu, að bæta því við sig. En vilji hann það ekki, verður að setja mann í lausa embættið eða veita það með því skilyrði, að hann bæti við sig hinu embættinu, þegar það losnar. Niðurstaðan verður því hin sama sem eftir stjfrv., en samkvæmt þessu verður aftur að breyta fyrirsögn frv.

Meiri hl. áleit líka rjett, að þessi lög gangi í gildi þegar í stað. Menn vita ekki, nema dauða annarshvors þeirra embættismanna, sem hjer ræðir um, geti borið að mjög bráðlega, og að minsta kosti spillir þetta ákvæði ekki.

Um nál. hv. minni hl. þarf jeg ekki að fara mörgum orðum; þykir mjer hann ærið stórorður, þar sem hann segir, að vonandi geri Alþingi ekki „hinu íslenska ríki þá hneisu, það menningartjón og þann fjárhagslega skaða, sem afnám þjóðskjalavarðarembættisins væri“. Ef til vill rökstyður hv. minni hl. (MJ) þessi orð sín svo vel, að hann geti sannfært hv. deildarmenn. En jeg hefi ekki mikla trú á því.