03.04.1923
Neðri deild: 32. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 60 í C-deild Alþingistíðinda. (1926)

17. mál, afnám yfirskjalavarðarembættisins við Þjóðskjalasafn Íslands

Bjarni Jónsson:

Jeg heyrði hæstv. mentamálaráðherra (SE) svara því til við hv. 4. þm. Reykv. (MJ), að ástæður stjfrv. hefðu verið nægar. Þetta er rjett að því leyti, að fæst orð hafa minsta ábyrgð, og betra er að segja eina þjettingsvitleysu en margar.

En taka verð jeg undir orð hv. 4. þm. Reykv., þrátt fyrir ummæli mentamálaráðherrans, að til þessa starfa þarf ekki aðeins alt aðra mentun, heldur og alt aðra geðshöfn, önnur áhugamál og annað skaplyndi. Bókaverðir þurfa að vera menn margfróðir, með vítt yfirlit yfir bókmentir og vísindi, hafandi vakandi auga á öllu, er fram fer í þeim greinum, og setja sig í samband við aðra sjer færari menn í hinum ýmsu greinum.

Hefi jeg verið hjer frá 1894, og hefi jeg þó aldrei getað fengið bók um heimspeki á safninu, sem jeg átti ekki betri áður. Hjer hefir vantað menn með viti og þekkingu, en þó hefir þetta nokkuð skánað. Hefir og verið alt of litill áhugi hjá þingi og stjórn að sjá um, að safnið verði handhægt og gott til notkunar.

Það er ekki rjett hjá hæstv. mentamálaráðherra, að það þurfi 2 bókaverði á landsbókasafnið af því að þar eru handrit. Hæstv. mentamálaráðherrann er einungis ekki svo hugkvæmur að koma auga á það, að það má flytja handritin yfir í skjalasafnið.

Skjalavörðurinn þarf hins vegar að vera fróður í íslenskri sögu og um einstaka menn, svo að hann hafi grun um, hvar leita eigi að fjársjóðum, sem fólgnir eru hjer og þar. Hann þarf að vita vel, hvað vernda þarf, vera grúskari. Skapshöfnin þarf að vera alt önnur. — Þýðir ekkert að reyna að berja þennan sannleik niður með fávísu hjali.

En rökin og rjett hugsun í þessu máli fara ekki í felur, þó að það geti verið, að meiri hl. verði með þessu frv. hjer í deildinni. Annars mun það sannast, að fleiri af þeim, sem við mentamál hafa fengist og vit hafa á þessu máli, eru þeirrar skoðunar, að frv. sje til ills.

Skárri væri það líka sparnaðurinn, sem af því hlytist, þar sem engin mannafækkun gæti átt sjer stað. Sá, sem tæki við Landsbókasafninu, hefði nóg að gera við að koma öllu í lag, þó að hann fengi 10 vel launaða aðstoðarmenn. Um Þjóðskjalasafnið er hið sama að segja, þó að þar sjeu þegar tveir góðir menn fyrir, honum til aðstoðar; þar er svo mikil vinna fyrir hendi. Hvernig færi þegar bæði söfnin væru komin í hendur þessa eina manns, sem alt á að vita? þá liða máske aldir svo, að ekki finnast markverð skjöl.

Hvernig færi fyrir bændum og forráðamönnum kirkjueigna, þegar þeir þurfa að finna skjöl og gamla máldaga? Þau finnast ekki, af því að engin er forstaðan og enginn, sem veit hvar þau eru. Jeg geri ráð fyrir, að mönnum muni ekki finnast mikið til um þennan sparnað hæstv. stjórnar. (Forsrh. SE: Háttv. þm. segir, að annað safnið sje í óreiðu nú, þrátt fyrir sína forstöðumenn). Jeg hefi sagt, að það stafaði af sparnaði, og jeg hefi ekki orðið var við, að hæstv. mentamálaráðherra hafi bætt neitt úr því. Einn starfsmaður úr Landsbókasafninu hefir skrifað um þetta í blað nýlega.

Það getur verið, að hæstv. forsrh. álíti, að það komi fáir menn á þessi söfn. En jeg er kunnugur þessu; og um skjalasafnið veit jeg vel, því að margir menn utan úr sveitum hafa beðið mig að útvega afrit af skjölum úr safninu um ýms efni, og veita þeir því talsverða aðsókn. Annars þarf ekki að rökleiða þetta meira; það er þingmönnum svo augsýnilegt mál, og aðeins ósparnaður að breytingunni, eins og sýnt er í nefndaráliti minni hl. þar er rjettilega bent á, að þetta embætti verði aðeins ofanviðskeyting við söfnin. Ef til vill er þetta gert til þess að koma einhverjum vel þokkuðum manni úr öðru starfi utan af stjórnmálasviðinu í þessa stöðu, ofan við hina tvo, sem í raun og veru hljóta að veita forstöðu hvoru safni fyrir sig. Hann yrði þeim aðeins til ógagns og fótakefli þeim, sem þyrftu að nota safnið. Hygg jeg, að ósparnaðurinn sje þá augljós.