03.04.1923
Neðri deild: 32. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 74 í C-deild Alþingistíðinda. (1932)

17. mál, afnám yfirskjalavarðarembættisins við Þjóðskjalasafn Íslands

Bjarni Jónsson:

„Kallaðu á haustið og það kemur,“ stendur einhversstaðar. Nú hefir hæstv. mentamálaráðherra (SE) sagt, að Dalasýsla hafi orðið til þess að draga úr þroska manna, og mun hann líklega hafa átt þar við Hannes Hafstein og Halldór Daníelsson, sem báðir hafa haft það fáránlega verkefni, sem hann kallaði, að vera þar sýslumenn. En það er gott, að hann hefir verið sýslumaður í þessum þroskasýslum, enda hefir þroski hans nú sýnt sig í þessum sparnaðarfrv. — Um málið sjálft þarf jeg ekki að fjölyrða, því það er auðsýnilegt, að þó hjer yrði fækkað yfirmönnum, eins og ráðherrann er stöðugt að tala um, þá þarf jafnframt að fjölga undirmönnum, eins og hann játar líka sjálfur, og það svo, að sparnaðurinn verður enginn. Og sá, sem yrði þessi yfirmaður, mundi ekki verða neitt annað en sykurtoppur ofan á öllu saman, en þyrfti að fá alla sjerþekkingu sína, að minsta kosti um annaðhvort safnið, úr undirmönnum sínum. Þar við bætist svo það, að með þessu er skemd ein dýrasta eign landsins. En áður en jeg sest er best að minnast dálítið betur á þroskann og sýslurnar, og jeg mætti þá kannske spyrja, hvernig t. d. Suður- Múlasýsla, sem á að vera ein af erfiðustu og þroskamestu sýslunum, hefir verið í þessu efni, eða hvernig hún hefir farið að því eða tekist að ala upp þessa ágætlega þroskuðu menn. Það væri kanske ástæða til þess að bera fram um þetta sjerstaka fyrirspurn, og ef jeg væri hjer eitthvert alþjóðkjörið spurningarmerki, mundi jeg kanske gera það. En af því að jeg er það ekki, læt jeg mjer nægja þessa athugasemd. En hinu vil jeg mótmæla fyrir hönd kjósenda minna, að nokkur ástæða sje til þess að bregða Dalasýslu um þroskaleysi eða nokkuð slíkt, eða þeim mönnum, sem þaðan koma.