03.04.1923
Neðri deild: 32. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 76 í C-deild Alþingistíðinda. (1934)

17. mál, afnám yfirskjalavarðarembættisins við Þjóðskjalasafn Íslands

Bjarni Jónsson:

Aðeins stutt athugasemd við þann ódauðlega. Þó Hannes Hafstein og Halldór Danielsson hafi sótt burtu úr Dölum, sannar það alls ekki það, sem hann vildi vera láta, heldur þvert á móti, því að því aðeins gátu þeir fengið meiri embætti, að þeir höfðu þroskast nóg til þess í Dölunum. Annars vil jeg aðeins segja hæstv. forsrh. (SE) það, að hann hefði haft gott af því að vera þjónandi starfsmaður í öðruhvoru safninu í nokkur ár — hann hefði svo getað orðið nógu þroskaður seinna til að verða sykurtoppurinn sjálfur — því þá hefði hann þó getað talað af einhverri reynslu og þekkingu um málið. En nú vantar það hvorttveggja, enda mun frv. aðeins vera komið fram til þess að sýna einhvern lit á því að reyna að efna það loforð, sem stjórnin gaf í fáti í fyrra, að endurskoða embættabáknið, sem hún kallaði. Nú hefir hún sýnt þann lit, og ætti það að vera nóg, svo hún gæti nú greitt atkvæði á móti frv. sjálf, til að bæta fyrir alt saman.