05.04.1923
Neðri deild: 34. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 79 í C-deild Alþingistíðinda. (1943)

79. mál, aukauppbót vegna sérstakrar dýrtíðar

Frsm. meiri hl. (Jón Auðunn Jónsson):

Eins og sjá má á nál. á þskj. 227 og 235, hefir nefndin klofnað. Hins vegar bera bæði nál. það með sjer, að nefndin er öll á einu máli um það, að krafan, sem í frv. felst, sje sanngjörn og rjettmæt.

Dýrtíðaruppbót er greidd af því, að dýrara er að lifa en gert er ráð fyrir, þegar fasti launastofninn er ákveðinn. Af því leiðir aftur það, að uppbótin ætti að breytast, ekki einungis eftir tímabreytingum dýrtíðarinnar, heldur líka eftir staðháttum, eftir því, hver dýrtíðin er á hverjum stað. Nefndin treysti sjer þó ekki til þess að fara út í þetta, vegna þess að hana vantaði nægilega nákvæmar upplýsingar. En hún vill skjóta því til hæstv. stjórnar að taka þetta til athugunar fyrir næsta þing.

Vegna fjárhagsörðugleika ríkissjóðs sá nefndin sjer þó ekki fært að hafa uppbótina hærri en 15% í Reykjavík og 10% í öðrum kaupstöðum. Eftir upphaflega frv. hefði uppbótin numið um 207 þús. kr., en með brtt. meiri hl. nefndarinnar um 112 þús. kr. Það er alveg rjett, að þetta er allhá upphæð, en við sjáum ekki, að ríkið geti með sanngirni skotið sjer undan þessari skyldu. Eins og getið er um í nál., er það einkum húsaleigan, sem tilfinnanlega eykur erfiðleikana, en hún er hæst í Reykjavík og á Ísafirði. Eftir ábyggilegri skrá, sem nefndin hafði um húsaleigu um 30 starfsmanna í Reykjavík, borguðu þeir í leigu meira en helming launa sinna margir hverjir, eða 59, 57, 51, 48% o. s. frv. Á Ísafirði er svipað ástand; þar borga menn nær alment í húsaleigu um þriðjung launa sinna og þar yfir. Og ef á annað borð á að bæta mönnum þetta upp, er langbest að gera það með beinni uppbót, því hitt er altaf hæpnara, að ætla að láta stjórnina fara að úthluta slíku; þó hún væri öll af vilja gerð, mundu henni verða mislagðar hendur og óánægja skapast út af þessu. Loks má geta þess, að dýrtíðin er nú orðin meiri en hún var, þegar uppbótin var ákveðin fyrir 1923, svo að það mælir líka með aukauppbótinni.