05.04.1923
Neðri deild: 34. fundur, 35. löggjafarþing.
Sjá dálk 82 í C-deild Alþingistíðinda. (1946)

79. mál, aukauppbót vegna sérstakrar dýrtíðar

Frsm. meiri hl. (Jón Auðunn Jónsson):

Jeg vil spyrja hv. frsm. minni hl. (MG), hvort hann hefir í hyggju að bera fram till. í þá átt, sem hann gat um áðan, ef till. meiri hl. ná ekki fram að ganga. Mjer finst það eðlilegt, þar sem hann hefir tjáð sig því hlyntan að haga uppbótinni á þann hátt. Jeg er annars sammála honum um það, að rjettara hefði verið að reikna dýrtíðaruppbótina tvisvar á ári, eins og við gerðum tillögu um 1921.

Jeg skal svo enn taka það fram, að till. okkar meiri hl. gerir aðeins ráð fyrir auka uppbótinni í kaupstöðum af þeirri ástæðu, að húsaleigan er yfirleitt margfalt hærri þar. Jeg skal ekki neita því, að dæmi hv. 1. þm. Árn. (EE) kunni að vera rjett að því er snertir húsaleiguna á þessum tveim stöðum, en það er undantekning frá reglunni, sem er sú, að húsaleiga er hæst í kaupstöðunum. En myndu þá ekki aðrar nauðsynjar í kaupstöðunum vera þeim mun dýrari, að það eitt væri næg ástæða til að gera upp á milli þeirra og kauptúnanna? Meiri hl. sá sjer annars ekki fært að fara neitt ítarlegar út í þetta efni, en áleit heppilegast að vísa málinu til stjórnarinnar að því er snertir nánari rannsókn.